Orkumálinn 2024

Ríflega 150 úthlutanir úr austfirskum jólasjóðum

Fleiri en 150 úthlutanir hafa í ár verið afgreiddar úr jóla- og velferðarsjóðum á Austurlandi, sem starfræktir eru til að styrkja fólk sem erfitt á með að ná endum saman til að geta gert sér dagamun yfir jólin.

„Úthlutunin hefur gengið vel og allir sem sótt hafa um fá úthlutað fyrir jól,“ segir Þórunn Björg Halldórsdóttir, starfsmaður Rauða krossins í Fjarðabyggð sem heldur utan um sjóðinn þar.

Þrír sjóðir eru starfræktir eystra. Í fyrsta lagi í Fjarðabyggð, öðrum lagi í Múlaþingi og Fljótsdal og í þriðja lagi á Vopnafirði. Nafnið jólasjóður er notað hjá fyrstu tveimur aðilunum en Vopnfirðingar tala um Velferðarsjóð.

Fyrirkomulagið er eins í öllum tilfellum. Að sjóðnum standa félagsþjónustur sveitarfélaganna, bæði lútersku og kaþólsku kirkjurnar, Rauði krossinn og félagasamtök á borð við AFL Starfsgreinafélag, Kiwanis, Lions, kvenfélögin og fleiri. Eins styrkja bæði einstaklingar og fyrirtæki sjóðina með framlögum. „Sjóðurinn nýtur mikils velvilja og fólk vill gefa í hann, til dæmis bjóðast áhafnir skipa til að aðstoða á einn hátt eða annan,“ segir Þórunn Björg.

„Við viljum koma á framfæri innilegum þökkum til þeirra sem hafa verið rausnarlegir við sjóðinn, bæði nú og í gegnum tíðina. Án þeirra gengi þetta ekki upp,“ segir Þorgeir Arason, sóknarprestur í Egilsstaðaprestakalli og gjaldkeri sjóðsins í Múlaþingi.

Enginn rekstrarkostnaður er við sjóðina þannig að öll framlög eiga að skila sér beint til þeirra sem sækja þjónustuna. Einstaklingar, sem fá styrk úr sjóðnum, fá allir einhvers konar inneignarkort, annað hvort í matvöruverslunum á svæðinu eða bankakort. „Það er ákveðin virðing við fólk að það geti valið sér sjálft hvað það vill,“ útskýrir Þorgeir. Í Múlaþingi fer andvirði 5-6 milljóna í gegnum sjóðinn í ár.

Helmingi fleiri umsóknir í Fjarðabyggð

Búið er að afgreiða um 80 umsóknir í Fjarðabyggð en um 70 í Múlaþingi. Þorgeir segir fjöldann svipaðan og undanfarin ár meðan mikil aukning er í Fjarðabyggð. „Ég hef starfað við sjóðinn í fimm ár. Umsóknirnar hafa aldrei verið fleiri,“ segir Þórunn.

Undanfarin ár hafa umsóknirnar í Fjarðabyggð verið um 40 talsins. Þórunn áætlar að baki hverri umsókn séu um fimm einstaklingar. Miðað við þá tölu hafa um 400 manns þegið aðstoð í Fjarðabyggð samanborið við um 200 áður. Hún segir talsvert um að stórar fjölskyldur óski aðstoðar, um 90% umsækjenda séu fjölskyldufólk. Af einstæðingum séu það einkum einstæðir foreldrar sem leiti til sjóðsins. Hún segir þessa auknu aðsókn hafa komið á óvart en engar sérstakar ástæður liggi að baki.

Þorgeir að á flestum tilfellum sé það svo á heimilum sem sæki í sjóðinn í Múlaþingi að á heimilinu sé aðeins ein fyrirvinna. Bæði hann og Þórunn benda á að sérstaklega kreppi að einstæðum foreldrum, öryrkjum eða fólki sem lent hafi í veikindum. „Mest er þetta fólk á vinnualdri sem ekki nær endum saman. Ástæðurnar eru margvíslegar, örorkubæturnar eru það lágar að fólk á erfitt með að gera sér dagamun,“ segir Þorgeir. „Það eru engar nýjar ástæður,“ bætir Þórunn við.

Í ár er úthlutað úr Velferðarsjóði Vopnfirðinga í þriðja sinn. Þuríður Björg Wiium Árnadóttir, sóknarprestur, segir umsóknirnar ekki margar. Þar hafi umsóknum heldur fjölgað meðan Covid-faraldurinn stóð sem hæst en síðan virðist þeim hafa fækkað aftur.

Þórunn Björg segir sjóðinn í Fjarðabyggð hafa annað aukningunni. Enn sé svigrúm því gjarnan bætist einhverjar umsóknir við á síðustu stundu. Þar er hægt að sækja um til félagsþjónustunnar, kirkjunnar eða Rauða krossins. Í Múlaþingi er einnig enn opið fyrir umsóknir. Þar er sótt um rafrænt í gegnum mínar síður Múlaþings. „Rafræna ferlið hefur hjálpað til. Fólk á að vera óhrætt við að sækja um þessa aðstoð ef það þarf hana,“ segir Þorgeir að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.