Skip to main content

Rólegt hjá björgunarsveitum það sem af er morgni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. des 2022 09:41Uppfært 20. des 2022 09:42

Engin útköll hafa verið hjá austfirskum björgunarsveitum síðan lokið var við að bjarga fólki af Möðrudalsöræfum um miðnætti. Flestir fjallvegir eystra eru ófærir. Von er á að enn bæti í snjóinn síðar í dag.


Björgunarsveitir frá Vopnafirði, Fljótsdalshéraði héldu upp á Möðrudalsöræfi eftir að útkall barst um klukkan þrjú í gær. Austfirsku sveitirnar aðstoðuðu fólk úr sex bílum auk þess sem einn bættist við eftir að komið var niður í Hérað.

Hægt var að fylgja flestum bílunum til byggða þar sem slæmt skyggni var stærra vandamál en ófærð, þótt einhverjir hafi verið skildir eftir. Haldið var annars vegar til Vopnafjarðar, hins vegar Egilsstaða. Þá fóru björgunarsveitir af Mývatni til aðstoðar bílum sem voru norðar á öræfunum.

Ófært eða lokað er yfir Öxi, Breiðdalsheiði, Vatnsskarð og Fjarðarheiði. Þungfært er og stórhríð á Fagradal. Á Héraði er þungfært eða þæfingur. Athugun er á innanlandsflugi eftir hádegi.

Útleysing hjá Norðuráli olli truflunum upp úr klukkan níu í morgun en ekki rafmagnsleysi á Austurlandi, svo vitað sé.

Talsvert snjóaði eystra í gærdag og fram eftir nóttu í sambland við skafrenning. Á Héraði er til að mynda töluvert fannfergi. Þegar á leið dró úr úrkomu eða stytti upp auk þess sem vind lægði og hafa snjómoksturstæki hamast við að ryðja götur. Ástandið hefur samt áhrif á starfsemi fyrirtækja og stofnana, þannig er sýsluskrifstofan á Eskifirði lokuð þar sem fólk kemst ekki til vinnu.

Gul viðvörun er í gildi fyrir Austfirði til miðnættis en fyrir Austurland á Glettingi frá 10-19 í dag. Á þessum tíma má búast við talsverðri snjókomu og vindi. Á Austfjörðum hlýnar heldur og gæti úrkoman fallið sem slydda. Lögreglan á Austurlandi hefur beint því til íbúa að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu á meðan veðrið gengur yfir.

Mynd úr safni.