Rýmingu lokið í Neskaupstað
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. mar 2023 16:10 • Uppfært 27. mar 2023 16:11
Lauslega áætlað má gera ráð fyrir því að um þriðjungur íbúa Neskaupstaðar hafi þurft að yfirgefa heimili sín í dag vegna snjóflóðahættu. Rýmingu er nýlega lokið. Veðrinu er að slota og verða næstu skref ákveðin þegar hægt er að skoða fjallið ofan bæjarins. Bæjarstjóri segir íbúa taka ástandinu af æðruleysi.
„Til viðbótar við Mýrar- og Bakkahverfin, sem eru óvarin, voru efstu hús byggðarinnar rýmd ef ske kynni að spýjur úr snjóflóðum slettust yfir varnargarðana. Endanleg rýming var gefin út um hádegið og henni er lokið,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Hann er uppalinn Norðfirðingur og býr þar. Hann hefur í dag verið í aðgerðastjórn almannavarna með aðsetur í húsi björgunarsveitarinnar Gerpis. „Það er farið að lægja og draga úr snjókomunni. Það sést orðið upp í efstu húsin en við bíðum eftir að sjá fjallið áður en við metum framhaldið,“ segir Jón Björn. Samkvæmt upplýsingum Austurfréttar hefur verið flogið yfir svæðið með flygildum í dag en skyggni var takmarkað.
Þrjú snjóflóð féllu við byggðina í morgun, þar af eitt á íbúðarhús við Starmýri. Ekki urðu teljandi meiðsli á fólki. Um tíu manns þurftu aðhlynningu, oftast vegna glerbrota úr rúðum sem brotnuðu þegar snjóflóðið skall á húsunum. Einhverjir urðu fyrir höggum en meiðslin eru ekki talin alvarleg.
Umfang skemmda á húsunum er enn óljóst. Austurfrétt hefur spurnir af töluverðu eignatjóni og er innbú fólks í einhverjum tilfellum mjög illa farið. „Það brotnuðu rúður þannig snjór komst inn í íbúðir. Síðan fóru þarna bílar af stað. Ég hef aðeins séð myndir, við höfum ekki getað skoðað húsin en það er ljóst að þarna er töluvert tjón.“
Fólk tekur aðstæðum af æðruleysi
Fjöldahjálparmiðstöð var opnuð í félagsheimilinu Egilsbúð. Jón Björn var þar á þriðja tímanum og ræddi við fólk. Ljóst er þó að snjóflóðin vekja upp erfiðar minningar frá því í desember 1974 og kostuðu tólf mannslíf.
„Fólk tekur þessu af ótrúlegu æðruleysi þótt eðlilega hreyfi þessir atburðir við fólki. Ég veit að margir eru slegnir og eðlilegt að fólk sé hrætt en jafnaðargeðið virðist yfirsterkara og fólk ákveðið í að komast í gegnum þetta saman,“ segir hann.
Aðspurður áætlar Jón Björn að ríflega 200 manns séu í félagsheimilinu. Um 150-160 hús voru rýmd í dag og út frá því má búast við að um 450 af 1500 íbúum bæjarins hafi þurft að fara að heiman. Þeir sem ekki eru í Egilsbúð fara annað í bænum því leiðin út úr honum er lokuð vegna frysta flóðsins í morgun.
Ekki verið hætt á að koma aðstoðarfólki til Norðfjarðar
Það féll meðfram varnargarði ofan Urðarteigs, í farveg eins flóðanna frá 1974. Ekki hefur þótt hættandi á að reyna að opna þar fyrr en aðstæður í giljunum þar ofan sjást betur. Björgunarskipið Hafbjörg var um hádegi færð úr höfninni innan bæjarins út í bæinn sjálfan og er því til taks ef á þarf að halda.
Ekki hefur heldur verið hægt að koma björgunarliði annars staðar af Austfjörðum til Norðfjarðar. Eftir hádegi í dag lenti um 60 manna hópur á Egilsstöðum og bíður þar. Ekki hefur verið hætt á að ryðja yfir Fagradal vegna snjóflóðahættu. Hugsunin er þó sú að hjálparfólk sé komið nær ef á þarf að halda en einnig þarf að huga að því að skipta út björgunarfólki í Neskaupstað sem verið hefur á ferðinni síðan eldsnemma í morgun.
„Álagið er farið að minnka og hægt að fara í minni verkefni. Við höfum samt ekki komið fólki í hvíld. Við förum núna að skoða hvernig hægt sé að koma fólki hingað. Við þurfum ekki endilega fleira fólk á svæðið en það þarf að hvíla fólk,“ segir Jón Björn.
Þyrla Landhelgisgæslunnar er komin austur og flytur lögregluþjóna á Seyðisfjörð, þar sem um 50 hús voru rýmd vegna snjóflóðahættu og lækni til Neskaupstaðar. Þá er einnig rýming í gildi fyrir innsta hluta Eskifjarðar.
Búist er við að rýmingarnar standi í nótt.
Mynd: Landsbjörg