Sagan um rostunginn Thor flýgur um heiminn
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. feb 2023 08:51 • Uppfært 27. feb 2023 10:17
Rostungurinn sem gerði sig heimakominn á flotbryggju á Breiðdalsvík á föstudag er ekki bara einhver rostungur heldur frægur fyrir ferðir sínar – og gjörðir. Fréttamiðlar beggja vegna Atlantsála hafa fjallað um ferðir Thors eftir að Austurfrétt flutti þá fyrstu.
Það voru samtök breskra kafara sem vinna að verndun lífríkis sjávar (British Divers Marine Life Rescue) sem báru kennsl á Thor út frá blettum á hreifunum.
Dýrið er það frægt að það á sína eigin síðu á Wikipediu. Samkvæmt henni sást fyrst til Thors, sem við viljum sennilega skrifa sem Þór, í norður Hollandi í nóvember 2022. Hann ferðaðist meðfram norðurströndinni yfir til Frakklands. Óttast var um tíma að hann færi enn sunnar, þangað sem rostungar eiga vart heima.
Flugeldasýningunni frestað
Thor tók þó rétta stefnu og skaut upp kollinum á sunnanverðu Englandi í desember. Eftir það sást hann næst á gamlársdag í Scarborough á norður-Englandi. Af virðingu við rostunginn var ákveðið að fresta flugeldasýningu þá um kvöldið. Sumum þótti það súrt meðan aðrir sögðu það sigur fyrir dýravernd.
Koma rostungsins vakti þar mikla athygli og þótt hann staldraði ekki lengi við greindi BBC frá því seint í janúar að menntaskóla staðarins hefði borist fjöldi fyrirspurna frá fólki sem vildi innrita börn sín í skólann. Tveimur dögum síðan sást svo til Thors ögn norðar, í Blyth, en svo ekki meir fyrr en á Breiðdalsvík.
Eins og svo oft staldraði rostungurinn ekki lengi við heldur var horfinn á laugardag. Yfir helgina hefur fjöldi fréttamiðla sagt frá ferðum Thor, meðal annars breska ríkisútvarpið BBC, The Telegraph, The Guardian og Daily Mail.
Thor gerði sér glaðan dag
Þá rataði Thor einnig í fréttirnar hjá New York Post í Bandaríkjunum undir fyrirsögninni sem útleggst nokkurn vegin svona: „Thor, rostungurinn sem stundar sjálfsfróun, finnur gleðina í nýju þorpi“ og þar vísað í Elís Pétur Elísson um að rostungurinn sé „hæstánægður“ á bryggjunni.
Ástæðan fyrir henni er myndband sem náðist af rostungnum þar sem hann lét vel að sjálfum sér þar í Scarborough. Í kjölfarið birti vísindavefurinn IFLScience grein þar sem útskýrt var að sjálfsfróun meðal dýra væri ekki óalgeng og eru meðal annars taldar upp mörgæsir, höfrungar, simpansar og fleiri af báðum kynjum. Hún er hins vegar misaugljós en dæmi eru um að slík myndbönd hafi verið fjarlægð af YouTube fyrir að brjóta gegn notkunarskilmálum.
Á Wikipediu-síðunni kemur fram að Thor sé talinn vera að minnsta kosti þriggja ára gamall og um 750 kg að þyngd.
Mynd: Elís Pétur Elísson