Samið um stuðning ríkisins við LungA-skólann

Í síðustu viku var gengið frá samningi um stuðning íslenska ríkisins við starfsemi LungA-lýðháskólans á Seyðisfirði á þessu ári. Verið er að vinna að langtímafjármögnun fyrir skólann sem stækkar í ár með nýrri námsbraut.

Samningurinn, sem skrifað var undir í síðustu viku, gildir fram í ágúst og felur í sér 25 milljóna króna styrk sem auk hefðbundins rekstrar skólans er sérstaklega ætlað að styðja við tilraunakennslu á nýrri námsbraut nú í janúar og undirbúningi fyrir kennslu hennar í haust.

Samhliða þessu er stefnt að því að vinna að gerð þriggja ára samnings um stuðning ríkisins sem tilbúinn verði í haust. „Að fá langtímasamning sparar okkur gríðarlega vinnu og æðruleysi. Það er erfitt að vita ekki hvað er til ráðstöfunar þegar farið er inn í nýtt ár,“ segir Björt Sigfinnsdóttir, einn stjórnenda skólans.

Góður fundur

Í tilkynningu mennta- og barnamálaráðuneytisins segir ráðherrann, Ásmundur Einar Daðason, vera spenntur fyrir hinni nýju námsbraut, sem kallast LAND, þar sem lögð er áhersla á umhverfi og persónulega sjálfbærni í formi hráefnisnýtingar og fæðuöflunar úr nærumhverfinu.

„Með bættum samgöngum, flutningum og geymsluaðferðum höfum við fjarlægst okkar nærumhverfi. Með nýrri námsbraut og námskeiði LungA er horft til þess sem stendur okkur nær, að nýta hráefni úr nærumhverfinu, landi og sjó, til matar og verka. Framtakið felur einnig í sér meiri útiveru og fellur vel að áherslum stjórnvalda um fjölbreyttara námsval,“ er haft eftir honum þar.

Björt segir að gaman hafi verið að hitta Ásmund Einar og finna þann velvilja sem LungA-skólinn njóti. „Fundurinn með Ásmundi Einari var mjög skemmtilegur því hann sagði ítrekað að það væri mikill stuðningur við skólann, bæði í ráðuneytinu sem og þvert á flokka í þinginu. Það var ofboðslega ánægjulegt að heyra og finna.“

Skólinn þarf eigið húsnæði

Nýja námsbrautin hefur einnig ýtt undir áform um að byggja sérstakt húsnæði undir skólann, sem stofnaður var árið 2013 og varð þar með fyrsti íslenski lýðháskólinn. „Við Ásmundur Einar ræddum húsnæðismálin. Við erum í virku samstarfi við menntamálaráðuneytið um þau. Það aðstoðar okkur við gerð kostnaðaráætlunar og fjármögnun.“

Skólinn, sem er sjálfseignarstofnun, er í dag fjármagnaður með skólagjöldum og stuðningi ríkisins auk verkefnastyrkja úr samkeppnissjóðum. „Miðað við þær áætlanir sem við höfum núna þá þurfum við stuðning annars staðar frá þar til við fáum okkar eigið húsnæði.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.