Samningur vegna lóðar orkugarðs undirritaður

Sveitarfélagið Fjarðabyggð og Fjarðarorka, félag í eigu danska fjárfestingafélagsins Copenhagen Infrastructure Partners, undirrituðu í gær samning um leigu lóðar í Reyðarfirði undir væntanlega rafeldsneytisverksmiðju Fjarðarorku.

Um er að ræða samanlagt 38 hektara landssvæði úr landi jarðanna Hólma og Flateyrar í Reyðarfirði, sem eru í eigu sveitarfélagsins.

CIP, í samstarfi við fleiri aðila, vinnur þar að áformum um uppbyggingu Orkugarðs Austurlands. Þungamiðjan í honum er framleiðsla á rafeldsneyti fyrir skip og bíla þar sem grunnurinn er vetnið búið til þegar vatn er klofið í frumeindir sínar með rafmagni.

Í tilkynningu Fjarðabyggðar frá í morgun segir að um sé að ræða fyrsta lóðarleigusamninginn á Austurlandi undir starfsemi sem þessa og sé hann því afar mikilvægur fyrir áframhaldandi uppbyggingu orkugarðsins.

„Lóðarleigusamningurinn er mikilvægur áfangi á leiðinni að rafeldsneytisframleiðslu á Reyðarfirði og uppbyggingar á Orkugarðinum og styður við markmið ríkisstjórnarinnar og sveitarfélagsins í umhverfis- og loftslagsmálum. Til að ná árangri í baráttunni við loftslagsbreytingar verður að skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir umhverfisvænni kosti, og hér hefur verið stigið ákveðið skref í þá átt. Um leið er ég mjög ánægður með að Fjarðabyggð sé að skapa sér sess sem ákveðin miðstöð orkuskipta á Íslandi,“ er þar haft eftir Jóni Birni Hákonarsyni, bæjarstjóra.

Við framleiðsluna verða til aukaafurðir,svo sem varmi og súrefni, sem nýta á til frekari verðmætasköpunar á svæðinu. Meðal annars er til skoðunar uppbygging hitaveitu í Fjarðabyggð, áburðarframleiðsla á umhverfisvænni hátt en nú auk annarra hugmynda.

Samningurinn var samþykktur samhljóða í bæjarstjórn Fjarðabyggðar fyrir viku. Samningurinn er til 35 ára, frá 1. janúar 2026 en við ákveðnar aðstæður má framlengja upphaf samningstíma um tvö ár. Á íbúafundi fyrir jól skýrði Jón Björn frá því að samningurinn gerði CIP kleift að ráðast í nauðsynlegar rannsóknir á svæðinu fyrir umhverfismat en stefnt er að því að það verði tilbúið í lok árs 2025.

Frá undirritun samningsins í gær. Fremri röð frá vinstri: Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Magnús Bjarnason, stjórnarformaður Fjarðarorku og Jón Sveinsson, lögfræðingur Fjarðabyggðar. Aftari röð frá vinstri: Stefán Þór Eysteinsson, formaður bæjarráðs, Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, forseti bæjarstjórnar, Kristinn Þór Jónasson bæjarfulltrúi og Þuríður Lillý Sigurðardóttir bæjarfulltrúi. Mynd: Fjarðabyggð

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.