Viðræður um að fá fleiri öryggismyndavélar í Fáskrúðsfjarðargöng
Fyrr í vetur fóru fram umfangsmiklar brunaæfingar í Norðfjarðar- og Fáskrúðsfjarðargöngum hjá slökkviliði Fjarðabyggðar í samvinnu við vegargerðina og aðra viðbragðsaðila. Þær gengu vel en vörpuðu ljósi á eitt og annað sem færa má til betri vegar.
Æfingarnar fóru þannig fram að settur var á svið árekstur tveggja bifreiða í miðjum báðum göngunum, eldur kom upp við áreksturinn og þykkur reykur myndaðist. Að sögn Sigurjóns Valmundssonar, slökkvistjóri hjá slökkviliði Fjarðabyggðar, æfði liðið aðkomu að óhappinu úr báðum áttum á báðum stöðum og það með nýjum fullkomnum æfingabúnaði sem sérstaklega skal nota í göngum.
„Vegagerðin á búnaðinn en Slökkvilið Akureyrar heldur utan um hann og er með sérþjálfaðan mannskap til að keyra svona æfingar. Þessi æfing okkar var sú fyrsta, á landsvísu þar sem þetta nýja fyrirkomulag var reynt. Æfingin gekk vel, þeas það var ýmislegt sem fór úrskeiðis sem við lærðum af sem er einmitt tilgangurinn. Reynsla og þekking byggist upp með því að framkvæma svona æfingar. Í framhaldinu eru vegagerðin og við að vinna að uppfærslu á viðbragðsáætlunum gangnanna.
Í æfingunni kom berlega í ljós munurinn á Fáskrúðsfjarðargöngum annars vegar og Norðfjarðargöngum hins vegar.
„Þau fyrrnefndu eru byggð á eldri stöðlum þar sem var ekki krafa um myndavélaeftirlit í öllum göngunum eins og varð síðar þegar Norðfjarðargöngin voru byggð. Það var einn af stóru punktunum sem komu fram eftir æfinguna að í Fáskrúðsfjarðargöngum eru aðeins myndavélar við gangaopin beggja vegna. Það er bagalegt og getur valdið óvissu þegar óhapp verður í göngunum, tala nú ekki um ef eldur kviknar í ef við þurfum að fara inn í gön miklum reykjamekki. Myndavélaeftirlit er lykilatriði í því að hafa yfirsýn á vettvanginn. Þannig getum skipulagt okkur eins vel og unnt er með tilliti til öryggis allra sem eru í aðstæðununm sem og þeirra sem að koma. Við höfum verið í samtali við vegagerðina um þennan mun á milli gangna og þar er verið að skoða það með jákvæðum huga. Sjálfur er ég bjartsýnn á að það gangi upp.“
Sigurjón segir búnað þann sem slökkviliðið búi yfir sé almennt góður, það sé þó alltaf þörf á endurnýjun og unnið sé að því á kerfisbundinn hátt. Eins og staðan sé núna þá erum við þokkalega búin ef til þess kæmi að eldur kviknaði í göngum.
„Í tengslum við göngin erum við að endurnýja hjá okkur slökkvibíl. Við fórum í sameiginlegt útboð með fleiri slökkviliðum um það til að ná sem hagstæðustum verðum. Bíllinn er í smíðum og eigum við von á honum á vormánuðum 2024. Hann tekur mið af okkar kröfum hér, ekki síst með tilliti til jarðgangna. Hann mun verða staðsettur á slökkvistöðinni Hrauni og kemur til með að þjóna göngunum beggja vegna sem og Reyðarfirði og Eskifirði. Þó má ekki gleyma að með bættum samgöngum milli staða nýtast tæki og mannskapur á milli fjarða og víðar.“
Frá æfingunum í vetur en í þröngum göngum þarf ekki mikinn reyk til að menn sjái ekki handa sinna skil. Mynd Slökkvilið Fjarðabyggðar