Segja engar tafir á gerð nýs vegar yfir Öxi

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, segir engar tafir á framkvæmdum við nýjan veg yfir Öxi þótt farin hafi verið önnur leið en til stóð í upphafi með útboð framkvæmdarinnar. Þvert á móti sé vonast til að breytt aðferðafræði flýti fyrir.

Þetta sagði Bergþóra á íbúafundi um Axarveg sem haldinn var í gærkvöldi með fjarfundarfyrirkomulagi. Fulltrúar frá Vegagerðinni gerðu þar grein fyrir stöðu mála með framkvæmdina.

Nýr vegur yfir Öxi kom fyrst inn á samgönguáætlun árið 2007 og voru framkvæmdir þá ætlaðar strax árin 2009-10. Þeim áformum var frestað snemma árs 2009 í kjölfar efnahagshrunsins. Vegurinn fór aftur inn á samgönguáætlun árið 2011 en framkvæmdir voru þá ekki fyrirhugaðar fyrr en í lok áratugarins.

Í nýrri áætlun 2019 voru framkvæmdir færðar aftur til 2028-30. Vorið 2020 færðist hann þó fram á ný þannig að framkvæmdir hæfust 2022-23. Það var gert með að fara svokallaða samvinnuleið, það er að framkvæmdaaðili tæki þátt í að fullhanna veginn, gera hann, sjá síðan um snjómokstur og viðhald auk þess að semja um fjármögnun. Á móti var opnað fyrir innheimtu veggjalda á leiðinni.

Lagt var upp með sex slík verk. Eitt þeirra er komið á framkvæmdastig, ný brú yfir Hornafjarðarfljót. Bergþóra sagði í gærkvöldi að Axarvegur og ný brú yfir Ölfusá væru í undirbúningi en Sundabraut, tvöföldum Hvalfjarðarganga og nýr vegur við Vík í Mýrdal væru styttra komin.

Verkhönnun flutt til Vegagerðarinnar

Á fundinum í gær var farið yfir að þótt vegagerðin væri ekki hafin hefði tíminn undanfarin 15 ár eða svo verið nýttur til frumhönnunar og mats á umhverfisáhrifum. Bergþóra sagði að mörgum kæmi á óvart hversu langur aðdragandi Vegagerðar væri en vegir kæmu fyrst inn á síðasta tímabil samgönguáætlunar sem gildir til 15 ára. Þá sé ekki óalgengt að tíu ár líði frá umhverfismati að framkvæmd, líkt og staðan er með Öxi.

Tæpt ár er liðið síðan fundur var haldinn með verktökum sem áhugasamir voru um gera veginn. Þar var áætlað að síðasta ári yrði varið í útboðsferlið þannig því yrði lokið í byrjun þessa árs og gengið frá samningum. Samkvæmt því var verktakanum ætlað að sjá um verkhönnun. Framkvæmdatími var síðan áætlaður þrjú ár.

Fram kom á fundinum að þegar á reyndi hefði verkið verið dottið út af „fjárhagsáætlun“. Vegagerðin hefði þá ákveðið að halda sjálf áfram með verkhönnunina. Slíkt gæti jafnvel flýtt verkinu um allt að hálft ár að lokum. Bergþóra bætti einnig við að ekki hefði reynst hagkvæmt að semja við einkaaðila um rekstur og viðhald vegarins, því sé gert ráð fyrir að nýr Axarvegur verði í umsjá Vegagerðarinnar eins og aðrir þjóðvegir til framtíðar.

Framkvæmdir vorið 2024

Axel Viðar Hilmarsson, sem stýrir verkinu hjá Vegagerðinni, sagði að hönnun vegarins ætti að ljúka í vor. Verið er að hanna tvær brýr á veginn og á því að vera lokið í haust. Samningaviðræður standa yfir við landeigendur vegna veglagningar og efnistöku. Búið er að ljúka samningum í Skriðdal en ekki í Berufirði.

Axel og Bergþóra sögðu að nú væri miðað við að vegagerðin sjálf yrði boðin út snemma árs 2024. Þá verði verkhönnun að fullu lokið þannig að framkvæmdir gætu hafist innan tveggja mánaða og tækju þá um þrjú ár. Mögulega þarf að loka veginum um tíma meðan framkvæmdir standa yfir því nýi vegurinn liggur að hluta til á sama stað og núverandi vegur, sem er mjór og hlykkjóttur.

Unnið að Axarvegi af fullum krafti

Um fjármögnun verkefnisins sagði hún að opnað hefði verið fyrir samvinnuverkefnin með nýjum lögum árið 2020. Vinnuhópur um þau frá innviðaráðuneyti og fjármálaráðuneyti, auk Vegagerðarinnar, sé að hefja störf. Vegagerðin sé þessa mánuðina með fjármögnun Axarvegar til frekari skoðunar.

Hún ítrekaði nokkrum sinnum að enginn bilbugur væri á Vegagerðinni eða stjórnvöldum að ráðast í vegagerðina. „Ég get sagt hér að við ætlum að byggja Axarveg. Við höfum engar aðrar forsendur. Við höfum ekki fjárveitingavaldið en okkar yfirboðarar, ráðherra, eru einarður í að fara í þetta verkefni. Ég skil vel að fólki finni óvissan óþægileg en það er enginn bilbugur á okkur. Ég hef engar aðrar upplýsingar en að vinna að þessu verkefni með öllum árum. Það erum við að gera.

Við erum mjög ákveðin í þessari framkvæmd. Þá ákveðni fáum við frá okkar yfirboðurum. Við myndum ekki tala svona hér án skýrra skilaboða þeirra. Við værum ekki að fullhanna veginn annars, sú vinna er ekki ókeypis. Í það verjum við auðlindum sem ekki eru óþrjótandi. Við þurfum að forgangsraða og við gerum það í þennan veg sem við ætlum okkur að byggja.

Ég hef skýr skilaboð frá mínum ráðherra og ráðuneyti um að undirbúa hvernig við leysum þessa framkvæmd og erum hvött áfram í því. Úrvinnsla fjárhagslega hlutans hefur tekið tíma en á meðan fullhönnum við veginn til að flýta fyrir síðar. Við værum ekki að gera það nema við værum viss um að fá heimild til að fara af stað með hann.

Það er einlægur ásetningur okkar að byggja þennan veg. Vegagerðin hefur undirbúið hann í 16 ár, haldið honum vakandi í gegnum efnahagshrun og aðrar áskoranir. Hann verður fullhannaður í haust og við erum að vinna í fyrirkomulagi fjármögnunar. Ég hef þá skipun að leysa það og koma veginum í gegn. Ég mun leggja allan minn kraft í það – meiru get ég ekki lofað,“ sagði Bergþóra.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, sagðist hafa fundað með innviðaráðherra um miðjan nóvember og heyrt í aðstoðarmanni hans í gær. Þar hefði ekki verið að finna neinn bilbug gagnvart Axarvegi né á þingmönnum kjördæmisins.
 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.