Skip to main content

Sigríður Rún: Hugur allra er hjá Norðfirðingum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. mar 2023 10:09Uppfært 29. mar 2023 10:16

Sigríður Rún Tryggvadóttir, prestur á Seyðisfirði og prófastur á Austurlandi, segir Seyðfirðingum brugðið eftir að rýma þurfti hluta byggðarinnar vegna snjóflóðahættu á mánudag. Í einhverjum tilfellum ýfi ástandið upp minningar úr skriðuföllunum í desember 2020 en almennt sé fólk rólegt og með hugann hjá nágrönnum sínum á Norðfirði.


„Mér fannst eins og Seyðfirðingum væri brugðið en óttinn og óróinn voru minni en ég reiknaði með. Til að mynda hefur enginn gist í fjöldahjálparmiðstöðinni heldur langflestir hjá vinum og vandamönnum,“ segir Sigríður Rún.

Seyðisfjörður á kafi í snjó


Hún var sjálf í Reykjavík þegar rýmt var á mánudag en í símasambandi við fólk á svæðinu, meðal annars til að virkja samráðshóp áfallahjálpar á Austurlandi. Hún kom síðan austur í Egilsstaði þá um kvöldið en komst ekki heim til Seyðisfjarðar fyrr en í gærmorgunn.

„Það var erfitt að vera á Egilsstöðum á mánudagskvöld. Að bíða eftir upplýsingum því það var verið að reyna að opna Fjarðarheiðina. Síðan varð ljóst að það tækist ekki.

Ég hef aldrei séð jafn mikinn snjó og þegar ég kom inn í bæinn og eldri Seyðfirðingar ekki séð þetta mikinn snjó hér í áratugi. Það er ótrúlegt að hér hafi tekist að ryðja nánast allan bæinn, meira að segja inn í botnlangagötuna mína sem ekki er í forgangi fyrir hádegi. Það verður að hrósa snjóruðningsfólki fyrir það.“

Ýfir upp sár fólks um allt land


Sjálf býr Sigríður Rún utan rýmingarsvæðis en rýmt var á tveimur stöðum í bænum, annars vegar undir fjallinu Bjólfi í firðinum norðanverðum en undir Strandartindi að sunnanverðu. Þar undir er svæði sem einnig var rýmt í skriðuföllunum 2020.

„Það skiptir ekki máli hvar þú býrð, það eru allir bæjarbúar í þessu saman. Ef það er einhvers staðar hættuástand þá hefur það áhrif á alla. Miðað við fólkið sem ég heyrði í á mánudag þá vekur þetta upp skriðuminningar en miðað við allt og allt er ástandið betra en ég bjóst við.

Hugur allra er hjá Norðfirðingum. Ég upplifi að þar sé staðan erfiðari því þar féll snjóflóð inn í byggð og fólk lenti í því.“

Hún segir ljóst að ástandið nú hafi áhrif á fleira fólk en það sem býr í Neskaupstað. „Ég hitti konu í Reykjavík á mánudag sem ólst upp á Norðfirði. Hún sagði við mig að það væri svo ótrúlegt að það færi eitthvað í gang í líkamanum. Við sjáum keðjuverkun um allt land því þetta hefur líka áhrif á fólk á Vestfjörðum.“

Lengri tími eykur vanlíðan


Áhyggjur eru af veðurspá næstu daga og ekki útlit fyrir að fólk sem þurfti að rýma hús sín á Seyðisfirði, Eskifirði og í Neskaupstað fái að fara heim fyrr en um helgina. „Lengri tími í óvissunni eykur óróleika og vanlíðan. Þetta er ekki búið, við erum í yfirstandandi ástæðum líkt og þegar skriðurnar féllu. Það verður bara að taka eitt skref í einu.

Í svona aðstæðum skiptir upplýsingagjöf gríðarlega miklu máli fyrir sálina. Við viljum vita stöðuna. Annað er að hitta fólk í sömu aðstæðum og þar hjálpar að hafa sameiginlegan stað til að koma á.“

Prestarnir á svæðinu eru meðal þeirra sem veita stuðning og þeir hjálpast að við það. „Það hefur mætt mikið á prestinum í Neskaupstað, Bryndísi Böðvarsdóttur en svo vinnum við mikið saman. Það eru allir meðvitaðir um það þarf að leysa af fólkið sem mest mæðir á. Einna erfiðast á mánudag var að það var kolófært á milli staða. Það er reynt að leysa með símtölum auk þess sem þjálfaðir sjálfboðaliðar Rauða krossins veittu sálræna fyrstu hjálp.“

Prestar svæðisins veita sálræna aðstoð hvenær sem á henni þarf að halda. Eins er hægt að hafa samband við Heilbrigðisstofnun Austurlands á opnunartíma. Gjaldfrjáls hjálparsími Rauða krossins, 1717, er opinn allan sólarhringinn.