Sjaldan eða aldrei meiri heitavatnsnotkun á svæði HEF
Þó greiningarvinnu sé ekki að fullu lokið telur framkvæmdastjóri HEF að heitavatnsnotkun íbúa á þeirra svæði hafi sjaldan eða aldrei verið meiri en síðustu vikurnar.
Með tilliti til mikillar og langvarandi kuldatíðar hér austanlands nánast frá byrjun desember og langt fram í janúar þegar frost fór á köflum langleiðina í mínus 20 stig lék Austurfrétt forvitni að vita hvort þessa hefði ekki orðið glögglega vart í kerfum HEF.
Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri, vill ekki slá neinu föstu þar sem ekki er búið að greina það í þaula en segir afar líklegt að hæstu toppar í heitavatnsnotkun síðustu vikurnar hafi verið hærri en nokkurn tímann áður. Að sama skapi hefur meðalnotkun síðustu vikna verið með því allra mesta eða allt upp í 100 lítra rennsli per sekúndu þegar mest hefur verið.
Frost er á ný í veðurkortum fyrir Austurland út þessa viku meira og minna eftir lítils háttar hlé þegar hitamælar sýndu rautt um nokkurra daga skeið. Þá er og gert ráð fyrir talsverðri ofankomu þegar líður fram á vikuna.