Skoða kaup á slökkvibúnaði vegna gróðurelda í Fljótsdal
Fljótsdalshreppur kannar nú kaup á sértilgerðum slökkvibúnaði vegna gróðurelda en sá búnaður yrði staðsettur á mismunandi stöðum.
Með sívaxandi skógrækt víða á Austurlandi aukast sífellt áhyggjur af gróður- eða skógareldum en slíkir geta magnast upp á augabragði. Þótt slökkvilið í fjórðungnum séu almennt vel tækjum búin geta vegalengdir verið miklar og aðgengi á köflum erfitt þungum bílum og stærri slökkvitækjum.
Þessu vill Fljótsdalshreppur að einhverju leyti bregðast við með að kaupa, til að byrja með, tvö eintök af einföldum og léttum slökkvibúnaði sem hægt væri að staðsetja á mismunandi stöðum sem heppilegir eru taldir þaðan sem hægt væri að bregðast við gróðureldum hraðar en ella. Hægt er að ferja búnað þennan tiltölulega auðveldlega til og frá á fjór- eða sexhjólum og þannig slökkva eða tefja elda þangað til slökkvilið kemst á staðinn.
Það er Kjartan Benediktsson sem hefur verið að skoða þetta fyrir Fljótsdælinga en hann segir slíkan búnað hafa sannað sig víða í Evrópu og hann sjálfur hefur reynslu af notkun þeirra úti í Eistlandi.
„Þetta er mjög einfaldur og léttur búnaður sem samanstendur af tveimur vatnsdælum og mótor í einni einingu. Í raun bara bensínknúin háþrýstidæla til að slökkva elda og svo önnur dæla sem sogar upp vatn úr lækjum, vötnum eða tönkum eftir atvikum. Einn maður fer létt með að henda svona á fjórhjól og drífa sig af stað.“
Nákvæm staðsetning tækjanna liggur ekki fyrir að svo stöddu en jafnvel ekki útilokað að honum verði að einhverju leyti flakkað á milli bæja sem heppilegir þykja.
„Það eru fáeinar hugmyndir um staðsetningar en ef af þessum kaupum verður reiknum við með að reyna að þjálfa sem flesta íbúa til að nota þetta eða fái að minnsta kosti lágmarksþekkingu á búnaðinum.“