Skoðar skyldu um bólusetningu gegn ISA-veiru
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. jún 2022 11:13 • Uppfært 02. jún 2022 11:23
Nýjum starfshópi um smitvarnir og sjúkdóma í laxeldi verður meðal annars ætlað að skoða hvort rétt sé að koma á bólusetningarskyldu til varnar sjúkdóminum blóðþorra, sem greindist á tveimur eldissvæðum á Austurlandi í síðustu viku.
Ekki er búið að velja einstaklinga í hópinn en kallað verður eftir tilnefningum frá Matvælastofnun, Hafrannsóknastofnun, Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum auk mögulegs óháðs erlends sérfræðings. Fulltrúi ráðuneytisins mun leiða vinnuna.
Hópnum er ætlað að skoða smitvarnir og sjúkdóma í fiskeldi og vinna að tillögum um breytingar ef þurfa þykir. Hópurinn á að yfirfara lög og reglur um laxeldi og framkvæmd þeirra.
Meðal annars á að skoða laxeldi í Færeyjum þar sem hvert eldissvæði er einangrað og aðeins alin upp ein kynslóð laxa hverju sinni, fyrir utan aðrar takmarkanir milli svæðanna.
„Nú hefur blóðþorri verið staðfestur í öllum kvíum í Reyðarfirði og grunur er á smiti víðar. Það verður að grípa til allra hugsanlegra leiða til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Náttúra Íslands er okkar fjöregg og okkar skylda að vernda hana sem best við getum,“ er haft eftir Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra í tilkynningu.