Skólphreinsistöð á Djúpavogi talin framfaramál
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. jún 2022 14:28 • Uppfært 03. jún 2022 16:33
Þær stofnanir sem veittu umsögn um möguleg umhverfisáhrif skólphreinsistöðvar á Djúpavogi virðast almennt sammála um að hreinsistöðin verði framfaraskref fyrir náttúru svæðisins, þótt gæta þurfi að framkvæmdum á viðkæmu svæði.
Þetta kemur fram í samantekt Skipulagsstofnunar sem úrskurðaði í vikunni að framkvæmdin þyrfti ekki í umhverfismat.
HEF veitur, fyrir hönd Múlaþings, áforma að reisa skólphreinsistöð á Langatanga við Djúpavog en í dag fer skólp frá staðnum óhreinsað út í sjó.
Í umsögnum þeirra stofnana, sem lögum samkvæmt veita umsagnir um slíkar framkvæmdir, er framkvæmdinni almennt fagnað. Þannig segir Heilbrigðiseftirlit Austurlands hana farmfaraskref og Hafrannsóknastofnun telur að áhrif á sjóinn verði jákvæð.
Náttúrufræðistofnun bendir þó á að vanda þurfi til verka við framkvæmdina og staðsetningu þar sem um lítt raskað svæði sé að ræða. Langitangi sjálfur sé innan hverfisverndarsvæðis og Búlandsnes falli undir hverfisvernd þar sem það sé tiltölulega óraskað svæði með fjölbreyttu dýralífi, náttúru og minjum.
HAUST bendir á að fjalla hefði þurft betur um lyktarmengun í frumskýrslu HEF. Í svari veitufyrirtækisins segir að stöðin verði með lokuðu kerfi sem ólíklegt sé að lykt leggi frá. Ef það náist ekki að fullu gæti lykt legið yfir göngustíg skammt hjá en litlar líkur séu á að hún nái í þéttbýlið því næsta hús sé í 400 metra fjarlægð. Brugðist verið við ef svo gerist.
Þá er í umsögn Múlaþings sjálfs hvatt til þess að framkvæmdatími verði valinn út frá því að raska ekki varptíma fugla.
Til stendur að hefja framkvæmdir í sumar.