Snjóflóð féll í Neskaupstað
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. mar 2023 07:31 • Uppfært 27. mar 2023 07:37
Tvö snjóflóð hafa fallið við Neskaupstað í morgun. Annað í farveg eldra flóðs innan við bæinn, annað við ofanverðan bæinn. Fréttir af umfangi seinna flóðsins eru enn óljósar.
Samkvæmt tilkynningu aðgerðastjórnar féll snjóflóð í nótt vestan leiðigarða við Urðarteig. Flóðið fór yfir Strandgötu og í sjó fram. Þar með fór það í farveg snjóflóðanna sem féllu árið 1974.
Annað flóð féll síðar ofarlega í bænum. Fréttir af umfangi þess eru enn óljósar. Samkvæmt upplýsingum Austurfréttar hefur aðgerðastjórn almannavarna verið virkjuð.
Verið er að rýma eitt hús í bænum. Unnið er að því að meta aðstæður annarsstaðar í þéttbýlinu og víðar. Íbúar Norðfjarðar eru hvattir til að halda kyrru fyrir heima, hlémegin í húsum og bíða frekari upplýsinga. Öllu skólahaldi hefur verið aflýst í Fjarðabyggð sem og almenningssamgöngum.
Björgunarsveitir úr Fjarðabyggð hafa verið kallaðar út. Nánari tíðindi verða flutt eftir því sem þau berast.
Verið er að skoða ástanið víðar á Austfjörðum. Eftir mikla snjókomu í nótt eru íbúar Austurlands almennt hvattir til að halda sig heima.
Mynd úr safni.