Snjóflóð felldi frístundahús í Seyðisfirði

Snjóflóð eyðilagði frístundahús út með norðanverðum Seyðisfirði í morgun. Ekki er útlit fyrir neinar afléttingar á rýmingum á Austfjörðum fyrr en á morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðavakt Veðurstofunnar er sumarhús sem stóð skammt fyrir utan norðanverðan Seyðisfjarðarkaupstað, fallið. Það var mannlaust.

Grunur vaknaði um flóðið í morgun en ekki tókst að staðfesta það fyrr en þegar rofaði til seinni partinn. Flóð féll úr Bræðraborg í Bjólfi á þekktu snjóflóðasvæði.

Þá var seinni partinn í dag staðfest að snjóflóð hefði fallið úr Skágili ofan varnargarðanna í Neskaupstað. Erfitt er að meta umfang flóðanna því skyggni hefur verið takmarkað en ljóst að það hefur sæmilega öflugt og tekið hluta skógræktarsvæðis Norðfirðinga.

Staða varðandi rýmingar á Seyðisfirði, Eskifirði og Neskaupstað, þar sem tæplega 200 hús hafa verið rýmd í dag, óbreytt og fá íbúar ekki að snúa aftur til síns heima fyrr en í fyrsta lagi á morgun.

Viðbúið er að tilkynningum um snjóflóð fjölgi verulega á morgun þegar birtir til þannig fólk fari að sjá til fjalla. Hægt er að senda inn tilkynningar til ofanflóðadeildar Veðurstofunnar í gegnum skráningarform á vef hennar. Ábendingar eru vel þegnar.

Frá Seyðisfirði í dag. Mynd: Landsbjörg

 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.