Skip to main content

Snjóflóð felldi frístundahús í Seyðisfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. mar 2023 18:47Uppfært 27. mar 2023 18:48

Snjóflóð eyðilagði frístundahús út með norðanverðum Seyðisfirði í morgun. Ekki er útlit fyrir neinar afléttingar á rýmingum á Austfjörðum fyrr en á morgun.


Samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðavakt Veðurstofunnar er sumarhús sem stóð skammt fyrir utan norðanverðan Seyðisfjarðarkaupstað, fallið. Það var mannlaust.

Grunur vaknaði um flóðið í morgun en ekki tókst að staðfesta það fyrr en þegar rofaði til seinni partinn. Flóð féll úr Bræðraborg í Bjólfi á þekktu snjóflóðasvæði.

Þá var seinni partinn í dag staðfest að snjóflóð hefði fallið úr Skágili ofan varnargarðanna í Neskaupstað. Erfitt er að meta umfang flóðanna því skyggni hefur verið takmarkað en ljóst að það hefur sæmilega öflugt og tekið hluta skógræktarsvæðis Norðfirðinga.

Staða varðandi rýmingar á Seyðisfirði, Eskifirði og Neskaupstað, þar sem tæplega 200 hús hafa verið rýmd í dag, óbreytt og fá íbúar ekki að snúa aftur til síns heima fyrr en í fyrsta lagi á morgun.

Viðbúið er að tilkynningum um snjóflóð fjölgi verulega á morgun þegar birtir til þannig fólk fari að sjá til fjalla. Hægt er að senda inn tilkynningar til ofanflóðadeildar Veðurstofunnar í gegnum skráningarform á vef hennar. Ábendingar eru vel þegnar.

Frá Seyðisfirði í dag. Mynd: Landsbjörg