Spenninum treyst næstu daga en vel fylgst með

Búið er að undirbúa varatengingu við dreifikerfi Landsnets ef aflspennir Rarik í tengivirkinu á Stuðlum í Reyðarfirði slær út aftur, líkt og hann gerði í gærmorgunn. Bilunin í honum er ekki talin alvarleg þótt ljóst sé að starfsemi hans sé ekki fullkomlega eðlileg.

„Eftir gærdaginn höfum við náð betri mynd af spenninum. Við teljum að bilunin í honum hafi ekki verið alvarleg.

Með að taka sýni af olíunni á honum og greina gös í henni er hægt að sjá hvað er að gerast í spenninum. Ákveðin gös gefa merki um alvarlega bilun meðan önnur sýna að hún sé minna alvarleg.

Engu að síður er eitthvað að gerast í spenninum sem við erum ekki sátt við. Við treystum spenninum því áfram en höfum hann undir ströngu eftirliti,“ segir Örvar Ármannsson, deildarstjóri netreksturs hjá Rarik á Austurlandi.

Rafmagn fór af Reyðarfirði upp úr klukkan hálf átta í gær og var Reyðfirðingum nokkru síðar sagt að búa sig undir rafmagnsleysi til kvölds þar sem bilunin væri alvarleg. Skömmu fyrir klukkan tvö komst spenna á spennirinn á ný og þar með rafmagn á Reyðarfjörð sem hefur haldist síðan. Takmarkaðar líkur eru taldar á að bilunin endurtaki sig.

Strax í gær voru sendar varaaflvélar frá Seyðisfirði og Akureyri auk varaspennis frá Akureyri. Aðstæður voru erfiðar, Fjarðarheiðin lokuð framan af degi og Fagridalurinn allan daginn. Flutningabíll með varaaflvél frá Seyðisfirði festist á dalnum. Þá eru bæði aflvélarnar og spennarnir miklir um sig, hægt var með ráðstöfunum að koma vélunum í gegnum Vaðlaheiðargöng en ryðja þurfti Víkurskarð fyrir spenninn.

Flutningurinn gekk að lokum og nú eru þrjár varaaflvélar tilbúnar á Reyðarfirði en spennirinn bíður á Egilsstöðum. Hann verður væntanlega fluttur yfir í dag. „Það hefur ríkt mikil samheldni og allir lagst á eitt við að bjarga Reyðfirðingum úr þessum ógöngum,“ segir Örvar.

Í dag verður áfram unnið að því að undirbúa aðgerðir sem hægt er að grípa til ef spennirinn slær út aftur. Örvar segir mikilvægast þar neyðarfæðingu frá spenni Landsnets á Stuðlum inn til Reyðarfjarðar. Til hennar er hægt að grípa með tiltölulega stuttum fyrirvara en eftir er að fara betur yfir til hversu langs tíma er hægt að treysta á hana.

Spennirinn verður skoðaður frekar af sérfræðingum strax eftir áramótin og metið hvort hægt sé að gera við hann á staðnum. Í tilkynningu Rarik frá í gær segir að aðgerðum kunni að fylgja tímabundið rafmagnsleysi. Allt skipulagt straumrof verði tilkynnt til viðskiptavina sem fyrir því verða.

Tengivirkið á Stuðlum. Mynd: Rarik/Hafliði Bjarki Magnússon 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.