SSA styður upptöku varaflugvallargjalds
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 17. feb 2023 12:01 • Uppfært 17. feb 2023 12:01
Samband sveitarfélaga á Austurlandi styður hugmyndir um að flugfélög, sem fljúga til Íslands, verði rukkuð um sérstakt varaflugvallargjald sem nýtist í uppbyggingu á þeim völlum sem þurfa að vera til taks þegar ekki er hægt að lenda í Keflavík.
Þetta kemur fram í umsögn SSA við frumvarp innviðaráðherra um uppbyggingu og rekstur flugvalla og þjónustu við flugumferð. Þar er varaflugvallargjaldið kynnt til sögunnar um að það sé ætlað til að fjármagna nauðsynlegar framkvæmdir til að aðrir flugvellir geti með fullnægjandi þætti verið varaflugvellir fyrir Keflavík.
Rúmur áratugur er síðan varaflugvallargjald var lagt af og segir í umsögn SSA að síðan hafi uppbygging á varaflugvöllunum nánast stöðvast. Á sama tíma hafi umferð um Keflavíkurvöll vaxið verulega auk þess sem ferðaþjónustan hafi vaxið um allt land og sé orðin afar þjóðhagslega mikilvæg en hún reiði sig á áætlunarflug til og frá landinu.
„Þjóðhagslega mikilvæga samgönguinnviði eins og Egilsstaðaflugvöll er ekki hægt að byggja upp „eftir á“ þ.e. þegar við erum búin að lenda í þeim aðstæðum að þurfa nauðsynlega á honum að halda. Þá verður skaðinn því miður skeður!“ segir í umsögninni og bætt við að ítrekað hafi verið bent á þetta af hálfu SSA. Meðal annars er þar vakin athygli á að mikilvægi varaflugvallanna sé enn meira ef eldsumbrot á Reykjanesi halda áfram, eins og jarðvísindafólk reiknar með.
SSA segir því ánægjulegt að loks eigi að bæta úr þeim mistökum sem gerð voru þegar varaflugvallargjaldið var fellt niður á sínum tíma því það tryggi nauðsynlegt fjármagn í forgang stjórnvalda um uppbyggingu. Sambandið bendir á að sambærilegt gjald þekkist í flestum samanburðarríkjum í Evrópu og hafi gefist vel.
Fyrir liggi greining á hvað gera þurfi fyrir flugvöllinn á Egilsstöðum og því sé ekki að neinu að bíða með að innleiða flugvallargjaldið og hefja framkvæmdir strax í ár. „Það er mikilvægt að fjármagnið sem innheimtist á næstu árum verði notað til að vinna bug á þessari áratuga innviðaskuld, með því móti tryggjum við öryggi okkar allra og styrkjum um leið grunnstoðir hagkerfisins.“