Staðfest að þrjú snjóflóð hafi fallið við Neskaupstað
Staðfest er að þrjú snjóflóð hafi fallið við Neskaupstað í morgun. Eitt þeirra náði niður í byggð. Umfang flóðanna er enn að miklu leyti óljóst þar sem skyggni er vont á svæðinu.Fyrsta flóðið féll meðfram varnargarði ofan Urðarteigs innst í byggðinni. Það fór niður farveg snjóflóðs sem féll árið í desember árið 1974 og olli miklum skaða. Engin hús eru á því svæði í dag. Fljóðið var nokkuð stórt, féll yfir veg og út í sjó. Ekki er vitað hvort eða hve miklu leyti það lenti á varnargörðunum þótt það sé líklegt.
Annað flóðið féll um klukkan sjö úr Nesgili og lenti á íbúðarhúsum við Starmýri, einum fjölbýlishúsinu númer 21-23. Ljóst er að þar hefur orðið talsvert tjón. Ekki hefur verið hægt að mæla flóðið enn.
Hreinn Magni Jónsson hjá ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands, segir þó ljóst að um sé að ræða lengsta flóð sem fallið hefur í þessum farvegi þótt snjóflóð séu þar ekki óþekkt. Núverandi varnargarðar enda fyrir innan gilið.
Líklegt er að flóðið hafi ekki verið þykkt en farið hratt yfir, slík sé hegðun flóða í köldum snjó. Flóðið hafi síðan hrúgast upp við fjölbýlishúsið.
Þriðja flóðið féll um svipað leyti aðeins utar úr Bakkagili. Hreinn Magni segir út frá lýsingum heimafólks að það hafi stöðvast rétt fyrir ofan byggðina.
Ekki er vitað um fleiri snjóflóð, hvorki í Norðfirði né annars staðar á Austfjörðum, en líklegt að snjór hafi víðar farið af stað. Búið er að rýma stór svæði á Norðfirði og Seyðisfirði. Af hálfu almannavarna er talin komin á yfirsýn og stjórn á aðstæðum eftir því sem kostur er.
Mynd: Hlynur Sveinsson