Starfsfólk Loðnuvinnslunnar duglegt að sækja námskeið
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. des 2022 11:17 • Uppfært 29. des 2022 11:18
Starfsfólki Loðnuvinnslunnar standa til boða ýmis námskeið í gegnum fyrirtækið til að efla færni í vinnu og starfi. Þau hafa verið vel sótt.
„Öll námskeiðin eru valkvæð en hafa verið afar vel sótt. Við reynum að hafa öll námskeið á vinnutíma en stundum er ekki hægt að koma því þannig við ef að kennarinn getur ekki kennt á þeim tíma, auk þess sem öll þessi námskeið eru okkar fólki að kostnaðarlausu,“ segir Arnfríður Eide Hafþórsdóttir, mannauðs- og öryggisstjóri Loðnuvinnslunnar í viðtali á vef fyrirtækisins en hún heldur utan um námskeiðin.
Alls starfa um 180 manns hjá Loðnuvinnslunni af 13 þjóðernum. Sum námskeiðin eru sérsniðin fyrir fólk í ákveðnum störfum meðan önnur eru almennari. Þannig var bæði almennt næringarnámskeið en líka námskeið sérstaklega ætlað skipskokkum og matráðum í landi.
Þá hafa meðal annars verið haldin námskeið í skyndihjálp, bókhaldi, starfslokum, íslensku fyrir útlendinga og á lyftara. Á nýju ári er meðal annars á dagskránni námskeið í iðntölvustýringum sem helst í hendur við aukna tæknivæðingu fyrirtækisins.
Þá hefur Loðnuvinnslan komið sér upp ágætri aðstöðu fyrir námskeið og fyrirlestra, svo sem í Tanga, gömlu kaupfélagshúsi sem Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga, móðurfélag Loðnuvinnslunnar, á sem og í Wathnes-sjóhúsi, einni elstu byggingunni í Búðaþorpi.