Skip to main content

Stefán Þór: Við erum með einhvern í huga

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. feb 2023 17:00Uppfært 20. feb 2023 17:04

Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans og formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, segir ákvörðun Jóns Björns Hákonarsonar um að láta af störfum sem bæjarstjóri hafa komið á óvart. Ákvörðunin hafi þó ekki áhrif á meirihluta samstarfið og kominn sé mögulegur kandídat sem arftaki.


„Þetta kom okkur sannarlega á óvart og er ekki fullmelt enn þá. Hann hefur hins vegar skýrt ákvörðunina og miðað við það hefur greinilega verið aðdragandi. Við skiljum hans ákvörðum og styðjum hann,“ segir Stefán Þór.

Jón Björn tilkynnti á fundi bæjarráðs í morgun að hann myndi láta af störfum sem bæjarstjóri. Það mun hann gera í mars. Þá fer hann einnig í leyfi frá bæjarstjórn til ársloka.

Jón Björn hefur einnig verið oddviti Framsóknarflokksins í bæjarstjórn en flokkurinn hefur átt í meirihlutasamstarfi við Fjarðalistann frá kosningunum 2018. Mikil endurnýjun varð á framboðslistum beggja framboða í fyrravor og eru Jón Björn og Hjördís Helga Seljan, sem skipaði annað sæti Fjarðalistans og er forseti bæjarstjórnar, einu fulltrúarnir sem héldu áfram.

„Við höfum vaxið á þessum mánuðum og erum tilbúin til takast á við þetta. Við getum hringt í hann ef eitthvað er. Þetta hefur engin áhrif á meirihlutann. Við stöndum þétt saman og þéttar ef eitthvað er,“ segir Stefán.

Ekki hefur náðst í Jón Björn í dag en hann sendi frá sér yfirlýsingu á Facebook þar sem hann sagðist stoltur af verkefnum og þakklátur fyrir góð kynni af samstarfsfólki. Hann lýsir þó áhyggjum yfir orðræðu um pólitíska fulltrúa og að gagnrýni snúist of mikið um persónur.

„Já, við fundum að hann var orðinn aðeins þreyttur. Orðræðan snérist öll um hann, sama hvað í gangi var,“ svarar Stefán Þór aðspurður um hvort samstarfsflokkurinn hafi verið farinn að skynja þreytu vegna þessa á Jóni Birni. Hann tók við sem bæjarstjóri haustið 2020 í kjölfar starfsloka Karls Óttars Péturssonar en hafði áður verið forseti bæjarstjórnar í áratug.

Stefán Þór segir vinnu við að finna arftaka Jóns Björns vera komna í gang. „Það er annað verkefni til að leysa. Við erum byrjuð að líta í kringum okkur. Við viljum gera þetta fljótt og örugglega. Við erum að ræða saman um næstu skref og þau koma örugglega ljós fljótlega.“

Nánar aðspurður um hvort bæjarstjórn hefði arftaka í sigtinu eða hvort staðan verði auglýst svararði Stefán: „Við erum með einhvern í huga. Við sjáum hvernig það fer.“