Stefna á að hefja framleiðslu rafeldsneytis árið 2028

Fjarðabyggð og fjárfestingasjóðurinn CI ETF I, sem stýrt er af Copenhagen Infrastructure Partners (CIP), hafa undirritað nýja sameiginlega yfirlýsingu um næstu skref í uppbyggingu græns orkugarðs og framleiðslu græns rafeldsneytis í Fjarðabyggð. Gert er ráð fyrir að framleiðsla geti hafst árið 2028.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Fjarðabyggð.

Yfirlýsingin kveður meðal annars á um að Fjarðabyggð og CI ETF I gangi til samninga um staðarval, hafnarstarfsemi, aðgang að vatni og uppbyggingu á hitaveitu með heitu vatni sem verður til við rafeldsneytisframleiðslu.

Gert er ráð fyrir að orkugarðurinn byggist upp á norðurströnd Reyðarfjarðar sem er í eigu Fjarðabyggðar.

Fagnar skrefinu

Í tilkynningunni segir að ákvörðun CIP og Fjarðabyggðar byggir á vinnu sem unnin hefur verið undanfarið ár í samstarfi við Landsvirkjun við að meta kosti þess að þróa grænan orkugarð á Reyðarfirði. Í upphafi hafi verið kannaðir kostir þess að framleiða rafeldsneyti auk þess sem greind voru möguleg samlegðaráhrif við starfsemi á svæðinu. Vonir standa til að verkefnið styðji við orkuskipti Íslands í sjávarútvegi og landflutningum.

„Við fögnum þessu mikilvæga skrefi í áttina að áframhaldandi uppbyggingu á grænni orkuframleiðslu á Austurlandi. Á svæðinu er að finna öflugt atvinnulíf og við teljum þetta metnaðarfulla verkefni sé þýðingarmikið fyrir samfélagið okkar. Ísland stendur framar mörgum öðrum þjóðum í framleiðslu sjálfbærrar orku og getur skipt sköpum í baráttunni við loftslagsbreytingar eins og alþjóðasamningar kveða á um,“ er haft eftir Jóni Birni Hákonarsyni, bæjarstjóra.

Vilja byggja vetniseyju

Copenhagen Infrastructure Partners (CIP) er fjárfestingarsjóður með höfuðstöðvar í Danmörku og hefur einbeitt sér að ýmsum fjárfestingarverkefnum tengdum uppbyggingu grænnar orkuframleiðslu víða um heim. Á heimasíðu fyrirtækisins má til dæmis sjá kynningu á hugmyndum þess um byggingu vetniseyju í Norðursjó sem framleitt geti gríðarlega orku með vindi. Á COP26 ráðstefnunni birti CIP vegvísi með áætlun um hvernig sjóðurinn ætlar að auka hlut sinn í orkuskiptum með grænum fjárfestingum í orkugeiranum fyrir 2030, með fjárfestingum upp á 100 milljarða evra. CIP er með um 120 alþjóðlega fjárfesta, þar á meðal eru margir norrænir og alþjóðlegir lífeyrissjóðir.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri og Anna-Lena Jeppsson, verkefnastjóri hjá CIP, við undirskriftina á skrifstofum Fjarðabyggðar þann 14. júní síðastliðinn.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.