Stöðugt meiri krafa um að geta búið lengur í heimahúsum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 07. feb 2023 14:34 • Uppfært 07. feb 2023 14:34
Bæta þarf þjónustu við eldra fólk í dreifðum byggðum þannig það geti búið lengur í sínum heimahúsum og þar með heimabyggðum. Undirbúa þarf aukningu fólks með aldurstengda sjúkdóma á borð við heilabilun.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein Sigurveigar Gísladóttir, fagstjóra hjúkrunar á hjúkrunarsviði Heilbrigðisstofnunar Austurlands og M.Sc. í öldrunarhjúkrun í nýjasta tölublaði Austurgluggans, sem helgað er framtíðinni á Austurlandi.
Beðið er eftir heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk frá ríkinu en næstu aðgerðir á Austurlandi, eins og annars staðar, munu mótast af henni.
Sigurveig bendir á að Austurland sé með hátt hlutfall hjúkrunarrýma miðað við önnur landssvæði og hjúkrunarþyngd á austfirskum hjúkrunarheimilum hafi verið lægri en landsmeðaltalið. Staðan sé þó sú að þegar dagþjónusta og heimahjúkrun sé ekki lengur í boði í afskekktari byggðum þá flytjist íbúar, sem búið gætu lengur heima, fyrr á hjúkrunarheimili en í stærri byggðarlögum. Á Austurlandi sé því áskorun að fjölga leiðum til að mæta þeim óskum.
„Það má gera með ýmsum hætti, með tilkomu velferðartækni, samþættingu á heimahjúkrun og heimaþjónustu, forvörnum og ráðgjöf og hugsanlega fjölbreytilegri möguleikum í búsetuúrræðum, svo dæmi séu tekin,“ segir Sigurveig og bendir á að búferlaflutningar eftir sjötugt, milli byggðakjarna eða landssvæða, mótist oft af því að fólk sé að sækja í betri heimaþjónustu.
Spár núna gera ráð fyrir að meðalaldurs Íslendinga muni hækka á næstu árum. Hvernig það skiptist sé aðeins óljóst vegna búferlaflutninga.
Annað sem hækkandi meðalaldur hefur í för með sér er aukning veikleika sem hrjá eldra fólk. Sigurveig vekur í grein sinni sérstaka athygli á heilabilunarsjúkdómum því rannsóknir sýni að 60-70% íbúa hjúkrunarheimila hafi einhvers konar vitræna skerðingu.
Út frá landstölum megi áætla að 180 Austfirðingar séu með heilabilunarsjúkdóma. Spár gera ráð fyrir að sá fjöldi tvöfaldist til ársins 2050. Mikilvægt sé að styðja við heilsueflingu sem getur dregið úr slíkum sjúkdómum en sýna bæði veikum og aðstandendum skilning og virðingu.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í síðustu viku. Hægt er að panta áskrift hér.