Stóraukinn hagnaður Fiskeldis Austfjarða á síðasta ársfjórðungi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. mar 2023 11:13 • Uppfært 02. mar 2023 11:13
Fiskeldi Austfjarða nærri tvöfaldaði tekjur sínar á síðasta ári. Hagnaður á síðasta fjórðungi ársins nam nærri 180 milljónum íslenskra króna. Til stendur að leita mánaðarlega að ISA-veirunni sem olli miklum skaða í eldinu í fyrra.
Þetta kemur fram í uppgjöri fjórða ársfjórðungs ársins 2022 sem kynnt var og birt í norsku kauphöllinni í vikunni, þar sem félagið er skráð.
Hagnaður fyrir afskriftir á því tímabili í fyrra var tæpar 180 milljónir króna en á sama tíma árið áður var lítilsháttar tap. Tekjur á tímabilinu jukust úr 1,37 milljarði króna í um fjóra milljarða. Afgangur á hverju kílói var 56,3 krónur samanborið við 48,1. Slátrað var 3.150 tonni.
Rétt er að hafa í huga að samstæðan hefur breyst en samruni Fiskeldis Austfjarða við Laxa þannig að allt fiskeldi á Austfjörðum rann inn í eina samsteypu var staðfestur á árinu. Tekjur fyrirtækisins jukust úr 4,4 milljörðum króna í 9,2. Eignir félagsins fóru úr 23,5 milljörðum í rúman 51 milljarð. Heildarframleiðslan var 11.300 tonn.
Í samantektinni segir að gott verð hafi fengist fyrir vottaðan lax, þótt hann væri ekki stór. Flýta þurfti slátrunum hjá félaginu eftir að meinvirk ISA-veira fannst í eldinu. Fyrirtækið ráðgerir í framtíðinni að skima mánaðarlega fyrri veirunni enda segir í samantektinni að heilbrigði fisksins sé lykilatriði í rekstrinum. Þá kemur fram að árið hafi verið erfitt en sýnilegt að ákvarðanir til að minnka áhættu skili sér.
Halda áfram að stækka
Fiskeldi Austfjarða fjárfesti í fyrra fyrir tæpa tvo milljarða króna. Er það heldur minna en áætlað var enda hluti fjárfestinganna fluttur yfir á þetta ár. Ráðgert er að fjárfesta fyrir 2,8 milljarða á þessu ári og því næsta. Samhliða uppgjörinu var tilkynnt um að félagið hefði lokið við stóra fjármögnum upp á meira en tvo milljarða króna hjá DNB, Nordea, Arion banka og Landsbankanum.
Meðal þess sem stefnt er að á næstu mánuðum er að fjárfesta í seiðaeldi til að efla þau. Undirbúa þarf að hægt sé að slátra allt að 3.000 tonnum á mánuði því félagið ætlar sér að geta alið allt að 30.000 tonn af fiski árið 2025.
Vegna þeirra raskana sem ISA-veiran olli liggur slátrun niðri fram undir haust þannig ekki verið slátrað nema um 3.000 tonnum á þessu ári. Í ár er stefnt að því að setja út sex milljónir seiða sem verði að meðtaldi 300 grömm að þyngd þannig að framleiðslan á næsta ári verið 20.000 tonn. Fyrirtækið á síðan umsóknir um 10.000 tonn í viðbót til að ná markmiðunum um 30.000 tonnin.
Stjórnendur eru bjartsýnir á framtíðina eftir tíu ára reynslu því þeir segja góðan markað með háum verðum fyrir úrvals lax framundan.