Stóraukinn loðnukvóti breytir öllu fyrir Austurlandið
„Þetta er næstum tíföldun á loðnukvótanum frá síðasta ári, breytir öllu fyrir Austurlandið og landið allt og við erum auðvitað afskaplega ánægðir með þetta,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, vegna stóraukins loðnukvóta sem Hafrannsóknarstofnun leggur til á komandi vertíð.
Eftir tvö afar mögur ár í loðnuveiði eru horfur mjög bjartar næstu ár að mati Hafrannsóknarstofnunarinnar en lagt er að leyfa veiði á alls 904 þúsund tonnum. Þá séu stofnmælingar mjög góðar líka fyrir fiskveiðitímabilið 2022 - 2023.
Friðrik segir að landið í heild fái alls um 680 þúsund tonn í sinn hlut af heildarkvóta á loðnu og það sé vitaskuld himinn og haf frá þeim 70 þúsund tonnum sem íslensk fyrirtæki fengu fyrir ári síðan. Ekki liggur þó fyrir hversu stórt hlutfall kvótans útgerðir austanlands fá í sinn hlut.
„Mér sýnist þetta vera mesti loðnukvóti sem okkur hefur verið úthlutað í 20 ár eða svo og segir sig sjálft að þetta breytir öllu. Bæði fyrir okkur, þorskinn og allt lífríkið sjálft. Þá lítur út fyrir að úthlutun á næsta fiskveiðiári verði líka afar góð miðað við ungloðnumælingar í september og gangi það eftir ætti loðnuúthlutun næsta fiskveiðiárs sömuleiðis að vera mjög góð.“
Friðrik vonast til að loðnuskip fyrirtækisins haldi til hafs jafnvel strax í desember gangi allt eftir.