Skip to main content

Stutt straumleysi í Breiðdal vegna vinnu á Stöðvarfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. des 2022 17:35Uppfært 14. des 2022 17:37

Rafmagnið fór tvisvar af Breiðdal síðustu nótt vegna keðjuverkandi áhrifa frá vinnu spennistöð á Stöðvarfirði.


Á Stöðvarfirði ver verið að byggja utan um spenni til að verja hann veðri og vindum. Síðustu nótt þurfti að færa strengi á svæðinu og var þess vegna var varaflsvél keyrð á meðan.

Rarik sendi frá sér viðvaranir á vef sínum og til íbúa Stöðvarfjarðar í gær um að búast mætti við truflunum vegna þessa þar sem kraftur varaaflsstöðvarinnar er takmarkaður. Voru þeir meðal annars hvattir til að lækka á ofnum til að minnka álag en kynt er með rafmagni á þessu svæði.

Á meðan vinnu stóð fór rafmagnið tvisvar af Stöðvarfirði, stutt í fyrra skiptið en í það seinna tók öllu lengri tíma að byggja upp spennu aftur.

Sveiflur frá þessum atburðum urðu síðan til þess að rafmagnið fór einnig tvisvar af Breiðdælingum. Samkvæmt upplýsingum frá Rarik var straumleysið þar skammvinnt í bæði skiptin.

Á laugardag varð bilun í aðveitustöð á Breiðdalsvík sem olli allt að átta tíma straumleysi. Atburðirnir eru hins vegar ótengdir og samkvæmt vef Rarik eru ekki frekari truflanir vegna framkvæmdanna á Stöðvarfirði á dagskrá.