Sveitarfélög hægi á virkjanaáformum þar til réttindi eru tryggð
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. feb 2023 11:01 • Uppfært 28. feb 2023 11:05
Stjórn Samtaka orkusveitarfélaga hvetur sveitarfélög sem annað hvort hafa orkumannvirki á sínu svæði eða hyggja á uppbyggingu þeirra að staldra við í skipulagsmálum þar til sanngjörn skipting auðlinda hefur verið lögfest.
Þetta kemur fram í bókun stjórnarinnar frá síðasta fundi. Hún kemur í kjölfar nýlegra ályktana sveitarstjórna Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Múlaþings.
Múlaþing ályktaði vegna áforma um vindmyllugarð í landi Klaustursels um að það myndi ekki halda áfram skipulagsvinnu fyrr en stefna ríkisins í málefnum vindorkuvera væri ljós. Þar var meðal annars vísað til þess að sveitarfélög fá takmörkuð fasteignagjöld af raforkuverum.
Í ályktun stjórnar orkusveitarfélaga er bent á að í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar sé stefnt að því að fullum orkuskiptum þar sem notkun jarðefnaeldsneytis verði hætti náist fyrir árið 2040. Þess vegna þurfi ríkið að meta stöðu á framleiðslu á raforku í landinu, áætli frekari þörf og hvernig skuli afla þeirrar orku út frá meðal annars áhrifum á umhverfi, samfélag og efnahag.
Sanngjörn skipting af arðinum
Þá þurfi að endurskoða heimildir sveitarfélaga til gjaldtöku eða skoða aðrar leiðir sem komi sveitarfélögum, landeigendum eða nágrönnum vel á borð við skattaafslætti, samfélagssjóði, bætur eða tryggingar vegna umhverfisskaða og síðan niðurrifs á framkvæmda- og rekstrartíma.
„Arður af nýtingu náttúruauðlinda til raforkuframleiðslu þarf að skiptast með sanngjörnum hætti milli þeirra sem eru hagaðilar við orkuvinnslu. Tryggja þarf með lögum að nærumhverfið þar sem orkan á uppsprettu sína, njóti efnahagslegs ávinnings sem mun styrkja byggð þar sem orkan verður til um allt land. Það er sanngirnismál að orkuvinnslan skili sambærilegum tekjum í nærsamfélagið eins og öll önnur atvinnustarfssemi gerir. Einnig þarf að breyta raforkulögum til að tryggja að dreifikostnaður raforku sé sá sami í dreifbýli og þéttbýli,“ segir í ályktuninni.
Beðið eftir niðurstöðum vinnuhóps
Að undanförnu hefur verið beðið eftir niðurstöðu starfshóps sem skipaður var um stefnumótun ríkisins í vindorkumálum. Hann átti upphaflega að skila af sér um síðustu mánaðamót en óskaði þá eftir fá að skila skýrslu sinni í áföngum. Samkvæmt svari umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins við fyrirspurn Austurfréttar í síðustu viku á hópurinn að skila af sér hið fyrsta. Gert er ráð fyrir að vinna hópsins verði kynnt á næstunni og drög hans að lagafrumvarpi berist í vor.
Á fundi orkusveitarfélaganna var samþykkt að skipa starfsnefnd sem vinni tillögur að breytingum um tekjur sveitarfélaga af orkuframleiðslu, nýju lagafrumvarpi um orkuvinnslu og ræði við hagaðila. Tveir Austfirðingar eru í hópnum, Helgi Gíslason sveitarstjóri í Fljótsdal og Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings. Þá ætla orkusveitarfélögin að funda nánar um samfélagslegar forsendur við orkuskipti.
Mynd: Landsvirkjun