Tækniminjasafnið fær þrjár lóðir við Lónsleiru
Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings hefur samþykkt að úthluta Tækniminjasafninu á Seyðisfirði þrjár lóðir við Lónsleiru. Eftir þessu hefur verið beðið að sögn safnstjóra.
Eins og kunnugir vita lamaðist starfsemi þessa merka safns í skriðuföllunum 2020 en frá þeim tíma hafa stjórnendur leitað leiða til að koma því á fót á ný í góðu húsnæði. Kynntar voru tillögur að tveimur nýjum safnahúsum við Lónsleiruna á síðasta ári og þessi tilkynning nú gefur loks tilefni til að fara betur í þær tillögur og hugsanlega gera breytingar að sögn Elfu Hlínar Sigrúnar Pétursdóttur, safnstjóra.
„Teikningarnar sem við létum gera tóku aðeins mið af tveimur lóðum en ástæðan fyrir að við óskuðum eftir fleiri er að það bæði auðveldar hugsanlega stækkun safnsins í framtíðinni en ekki síður að það kostar mun minni landfyllingu en annars hefði verið. Nú þegar þetta liggur loks fyrir getum við tekið þessar hugmyndir upp aftur og gert á þeim breytingar ef þörf er á.“
Ósk stjórnenda safnsins var um fjórar lóðir við leiruna og að þær fengjust endurgjaldslaust auk þess sem svæðinu yrði breytt í safnasvæði í deiliskipulagi. Umhverfis- og framkvæmdaráð féllst á að gefa jákvætt svar við lóðunum 13, 15 og 17 auk þess að gefa ríflegan afslátt af gatnagerðargjöldum lóðanna enda hafi safnið misst sitt heimili 2020 og óheimilt sé að byggja á gömlu lóðum þess.
Í kjölfar lóðaúthlutana geta stjórnendur Tækniminjasafnsins loks hafist handa við hönnun á nýjum safnahúsið við Lónsleiruna á Seyðisfirði.