Tæpar 30 milljónir til uppbyggingarverkefna á Austurlandi
Tvö verkefni hér austanlands fengu tæplega 30 milljóna króna styrk úr sérstökum sjóði innviðaráðuneytisins sem ætlað er að efla og styrkja byggðir landsins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, úthlutaði í vikunni 130 milljónum króna til tólf landshlutaverkefna meðal landshlutasamtaka sveitarfélaga en þeim styrkjum skal úthlutað til sértækra verkefna á tilteknum sóknaráætlunarsvæðum í samræmi við byggðaáætlun á hverjum stað. Alls var sótt um 857 milljónir króna í heildina þetta árið.
Þeir tveir styrkir sem fara til Austurlands eru annars vegar 15,6 milljónir króna til verkefnisins Straumhvörf sem er samstarfsverkefni Norður og Austurlands um hönnun og vörusmiðju nýrrar hringrásar ferðamanna í tengslum við beint millilandaflug á Akureyri og Egilsstöðum.
Hins vegar verkefnið Vatnaskil sem Sambands sveitarfélaga á Austurlandi heldur utan um en það fékk 13 milljónir í styrk að þessu sinni. Það gengur út á nýsköpun og fjölbreyttara atvinnulíf í dreifbýli Austurlands og þar sérstök áhersla á unga fólkið.