Skip to main content

Takmarkað traust til meirihlutans í Fjarðabyggð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. feb 2023 13:16Uppfært 22. feb 2023 14:07

Tæplega 38 prósent íbúa Fjarðabyggðar bera lítið eða ekkert traust til meirihlutans í bæjarstjórn samkvæmt nýrri könnun. Rúm 23 prósent báru mikið traust meðan tæplega 40 prósent sögðust hlutlaus.

Þetta er meðal helstu niðurstaðna í skoðanakönnun sem Maskína framkvæmdi 13. til 17. febrúar síðastliðinn að tilstuðlan sjálfstæðismanna í sveitarfélaginu. Könnun þessi var gerð helgina áður bæjarstjóri Fjarðabyggðar ákvað fyrirvaralaust að segja af sér frá og með næstu mánaðarmótum en fyrr í dag var tilkynnt um nýjan bæjarstjóra sveitarfélagsins. Könnunin var lögð fyrir íbúa átján ára og eldri en svarendur voru alls 450 talsins.

Fyrir utan traust í garð meirihlutans var spurt í könnun þessari hvaða flokk íbúar myndu kjósa ef gengið yrði til kosninga í dag. Í ljós kemur að Sjálfstæðisflokkur myndi að mestu halda fylgi sínu frá sveitarstjórnarkosningum síðasta vor en hann mælist með 39,6 prósenta stuðning en var með 40,6 síðastliðið vor. Fjarðarlistinn bætur lítillega við sig frá kosningum og nyti stuðnings 24,9 prósenta meðan fylgi Framsóknarflokks minnkar um tvö prósentustig. Framsókn naut fylgis 30 prósent íbúa síðastliðið vor. Þrjú komma fjögur prósent myndu kjósa Vinstri græna og 4,2 prósent aðra flokka.

Athyglisvert er að sjá muninn milli byggðalaga í Fjarðabyggð samkvæmt þessari könnun. Sjálfstæðisflokkur nýtur mest fylgis á Eskifirði (60%) og Reyðarfirði (51%). Mestur stuðningur við Framsóknarflokk mælist á Breiðdalsvík (50%) og Fáskrúðsfirði (44%) meðan Stöðfirðingar eru mestir stuðningsmenn Fjarðalistans (45%) og VG (10%.)

Vetrarlegt á Eskifirði en þar mælist stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn langmestur miðað við aðra byggðakjarna.