Skip to main content

Takmörkuð áhrif af verkfalli olíubílstjóra á Austurland

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. feb 2023 08:51Uppfært 09. feb 2023 08:53

Útlit er fyrir að takmörkuð áhrif hljótist af verkfalli olíubílstjóra hjá Eflingu á Austurlandi. Einna helst gætu orðið raskanir á afgreiðslu flugvélaeldsneytis.


Verkfallið, sem samþykkt var í fyrradag, nær til olíubílstjóra hjá Olíudreifingu og Skeljungi á félagssvæði Eflingar sem í grófum dráttum er við Faxaflóa. Verkfallið á að hefjast á hádegi næsta miðvikudag, hafi ekki verið samið fyrir þann tíma og er ótímabundið.

Olíudreifing sér um olíuflutninga fyrir N1, Olís og Atlantsolíu meðan stöðvar Skeljungs eru flestar undir merkjum Orkunnar í dag. Hjá bæði Olíudreifingu og Skeljungi fengust þær upplýsingar að verkfallið hafi lítil áhrif á Austurlandi því bílstjórar þar eru ekki í Eflingu og olíuskip koma beint til Austfjarða. Flutningar með Keili, olíuskipi Olíudreifingar eiga að verða eðlilegir.

Fyrirtækið er með birgðastöðvar á Höfn, Vopnafirði, Seyðisfirði, Norðfirði og Reyðarfirði. Flutt er beint erlendir frá til Reyðarfjarðar og Norðfjarðar.

Skeljungur flytur á móti beint inn á stöðvar á Eskifirði og Reyðarfirði. Þórður Guðjónsson, forstjóri Skeljungs, segir að almennir viðskiptavinir og fyrirtæki á borð við útgerðir eigi ekki að verða fyrir neinum skakkaföllum vegna verkfallsins.

Verið er að skoða stöðuna með flugvélaeldsneyti, en Skeljungur er eini þjónustuaðilinn á Egilsstaðaflugvelli. Allt flugvélabensín landsins er flutt til Helguvíkur og þaðan keypt um landið. Þórður segir málin í skoðun en Helguvík er utan félagssvæðis Eflingar.