„Teljum okkur vel sett með mannafla og búnað“

Viðbragðsaðilar á Austfjörðum búa sig undir það sem koma skal eftir að appelsínugul veðurviðvörun var gefin út fyrir svæðið í kvöld og á morgun. Viðbragðsstaðan er talin ágæt en íbúar eru hvattir til að halda sig heima meðan viðvaranir eru í gildi. Komið gæti til frekari rýminga á húsum í dag.

„Það er búið að dreifa mannafla á þau svæði sem við teljum viðkvæmust. Við álítum okkur vel birg af bæði mannafla og búnaði. Síðan er hægt að færa til fólk með varðskipinu ef á þarf að halda,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn.

Strax í gær var veðurspáin farin að versna þannig að gefin var út gul viðvörun seinni partinn í gær. Hún hefur nú verið hækkuð í appelsínugula og gengur fyrr í gildi, eða klukkan 19 í kvöld. Búist er við mikilli snjókomu í nótt en síðan hláku með hættu á krapaflóðum seinni partinn á morgun. Líklegt er að veðrið teygi sig fram á föstudag.

„Hættan á krapaflóðum eru það sem er nýtt í stöðunni. Við erum að skoða möguleg viðbrögð við þeim með sveitarfélögunum,“ segir Kristján.

Veðurstofan tekur ákvörðun um rýmingar. Stór svæði voru rýmd á Eskifirði, Seyðisfirði og í Neskaupstað á mánudag en hluti íbúa á síðartöldu stöðunum tveimur fékk að fara heim í gær. „Veðurstofan er að skoða spár og meta varðandi rýmingar. Það er farið yfir þau svæði þar sem rýmingu var aflétt í gær. Þau gæti þurft að rýma aftur í kvöld. Það liggur engin ákvörðun fyrir en fólk var upplýst um þennan möguleika í gær.“

Viðbragðsaðilar hafa í morgun reynt að fyrirbyggja frekari skemmdir á húsum sem fengu á snjóflóðin í Neskaupstað á mánudagsmorgunn og aðstoða fólk á rýmdum svæðum við að komast heim til sín og ná í nauðsynlega hluti. „Við hvetjum fólk til að gera það sem fyrst því við reiknum allt eins með að loka þessum svæðum alfarið klukkan 15.“

Kristján Ólafur segir gagnlegt að íbúar haldi sig heima meðan veðrið gengur yfir. „Við hvetjum fólk til að vera sem minnst á ferðinni meðan þetta gengur yfir. Við höfum mikinn og öflugan viðbúnað sem við vonumst helst af öllu að ekki þurfi að reyna á.“

Snjóbíll við björgunarsveitarhúsið í Neskaupstað í morgun þar sem aðgerðastjórn hefur aðsetur. Mynd: Landsbjörg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.