Skip to main content

Þörf á aukinni fræðslu um málefni jafnréttis

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. feb 2023 09:52Uppfært 10. feb 2023 09:52

Jafnréttisdagar voru haldnir í Verkmenntaskóla Austurlands í vikunni þar sem nemendur fengu fræðslu um jafnréttismál og málefni hinsegin fólks. Jafnréttisfulltrúi skólans segir dagana hafa skapað mikilvægar umræður.

„Það er misjafnt hvernig nemendur taka í jafnréttisdagana, sumir skilja ekki af hverju þau þurfa að horfa á heimildamynd um trans stelpu eða mæta í málstofur en eftir á skapast mikilvægar umræður. Aðrir nemendur hlustuðu á erindin af áhuga. Það sjá ekki allir nemendur tilganginn í þessu en eru samt forvitin líka, fræðslan skilar sér á endanum þó allir fylgist ekki með af fullum áhuga,“ segir Birta Sæmundsdóttir, jafnréttisfulltrúi VA.

Á dögunum var meðal annars streymt frá málþingi kynjafræðinema við Háskóla Íslands og haldnar málstofur þar sem nemendur fengu tækifæri til að ræða málin. Á lokadegi jafnréttisdagana fengu nemendur fyrirlestur um kvenréttindabaráttuna í Íran frá Saqar Yari, 19 ára íranskri stelpu, sem er búsett á Egilsstöðum.

Birta segir að þörf sé á jafnréttisdögunum og aukinni fræðslu um málefni jafnréttis. Í VA er jafnréttisnefnd sem starfsfólk skólans sinnir en það vantar nemendur í nefndina. Birta segir að auglýsingar hafi hangið uppi til að fá nemendur í nefndina en ekki neinn tekið því sem sýnir hvað jafnréttisdagar eru mikilvægir

Birta segir fyrirlestur Saqar hafa verið hápunkt daganna. Hún sagði sögu sína og frá veruleikanum í Íran.

„Saqar var með frábært erindi sem hreyfði við okkur öllum og það er mjög mikilvægt að fræðast um aðra menningarheima þar sem munurinn er svona gríðarlega mikill til þess að átta okkur á því að jafnréttismál eru mislangt á veg komin í heiminum. Saqar var líka ánægð með að fá að koma og tala við okkur því hún vill fræða fólk um ástandið í heimalandi sínu. Vonandi verður þetta til þess að fleiri skólar hafi samband við hana og fái hana til þess að flytja erindi.“

Birtu langar til að jafnréttisdagarnir og fræðslan um málefni jafnréttis aukist, að þörf sé á þessu úti á landi því málin séu skemur á veg komin þar en á höfuðborgarsvæðinu. „Vonandi verður þetta hluti af skólastarfinu sem krakkarnir hlakki til enda um að ræða uppbrot í skólaárinu.“

Þetta er í annað sinn þar sem jafnréttisdagar eru yfir nokkra daga í skólanum. Áður voru stakir dagar tileinkaðir jafnréttismálum. „Þannig að við erum hægt og rólega að setja þetta á fasta dagskrá og erum mjög ánægð með þessa nýyfirstöðnu jafnréttisdaga,“ segir Birta.