Þurfa alltaf að hafa 30 kg af kótelettum tilbúin
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. feb 2023 09:33 • Uppfært 16. feb 2023 09:35
Bræðurnir Benedikt Þorvaldur og Sigurjón Trausti Guðgeirssynir Hjarðar tóku við rekstri Bókakaffis í Fellabæ síðasta haust. Þeir hafa haldið áfram föstum venjum á borð við kótelettur, fiskilummur og kökuhlaðboð en eru nú í óða önn við að undirbúa bolludaginn.
Þótt bræðurnir séu teknir við rekstrinum hélst Bókakaffi innan fjölskyldunnar. Gréta Sigurjónsdóttir, stofnandi þess, er móðursystir þeirra og systir hennar, Svandís, hafa lengst af staðið vaktina. Sigurjón hefur því áður unnið í afgreiðslunni.
„Ég er í raun alinn upp með þessu en ég hef alltaf haft áhuga á að vera með eigin rekstur. Ég vann hérna síðast 2013/14. Við fundum skóna mína um daginn. Ég passa ekki lengur í þá. Það sem er þó merkilegt er hve margir kúnnar eru hinir sömu og þá,“ segir Sigurjón Trausti.
„Ég var með hugmynd um stað sem hægt væri að fara inn fljótt og fá mat, eins að vera með salatbar. Ég sá það væri hægt að gera það hér án þess að breyta mjög miklu,“ bætir hann við.
Var farinn að horfa heim
Benedikt lauk námi í kjötiðn fyrir þremur árum og var farinn að horfa til þess að snúa aftur heim. „Gréta heyrði í mér snemma síðasta sumar og spurði hvort ég hefði einhvern áhuga á að koma og vera með eða taka við. Spjallið var ekki langt en það kveikti í mér. Ég og Guðrún (Hlíðkvist Kröyer) vorum þá búin að tala um að flytja í Egilsstaði með sumrinu.
Gréta sagði að ég gæti komið með einhverjar nýjar hugmyndir, til dæmis tengdar kjötiðninni og þá fór hausinn á fullt. Það er gaman að tala við hana því hún tekur vel í allar hugmyndir og fer síðan sjálf að hugsa út frá þeim. Þegar við Guðrún fluttum austur þá vorum við komin á að prófa að koma hingað. Okkur fannst engin áhætta í að prófa.“
Beðnir um að halda í stemminguna
Bókakaffi bræðranna opnað síðan þann níunda október. Þeir gerðu breytingar en ekki byltingu. „Við náðum að breyta miklu án þess að breyta mörgu. Við vorum beðnir um að halda í Bókakaffistemminguna en ekki umturna öllu. Við opnuðum aðeins rýmið, hér voru bókahillur sem voru farnar að láta á sjá.
Við héldum föstu punktunum. Kótelettum á miðvikudögum, fiskilummum á fimmtudögum og kökuhlaðborði á föstudögum og laugardögum. Síðan bættum við salatbarnum við og rétti dagsins í hádeginu hina dagana.
Fyrsta fimmtudaginn ákváðum við að hafa ekki brauðsúpu með lummunum því okkur fannst hún ekki seljast nógu vel. Ég vissi ekki hversu mikil trúarbrögð hún væri. Einn fastakúnninn rauk eiginlega á dyr og sagðist ekkert hafa lengur hér að gera. Það var því endurskoðað,“ segir Benedikt.
Undirbúa bolludaginn
Þótt bræðurnir hafi haft einhvern grunn sem nýttist í veitingarekstrinum hafa þeir þó þurft út í djúpu laugina á ýmsum sviðum. „Það fyndna er að hvorki ég né Benedikt ætluðum okkur að gera neitt í bakstri en nú er ég kominn á fullt í því og hef mjög gaman af því.
Eftir að Fellabakarí fór bökum við okkar eigið brauð, erum að prófa okkur áfram með eigin sætabrauð auk þess sem við gerum ostaslaufur, pizzasnúða og slíkt. Síðan verður bolludagurinn svakalegur. Fellabakarí gerði 20 þúsund bollur, við stefnum kannski á helminginn. Ætli við þurfum ekki að fara að finna uppskrift,“ segir Sigurjón.
„Þetta hefur gengið ágætlega, miðað við að við erum að gera margt sem við höfðum ekki gert áður. Ég hafði ekki eldað fyrir fleiri en sjálfan mig og mögulega Guðrúnu. Það eru viðbrigði að fara úr heimaeldamennsku í að þjóna 20, 30, 40 – allt upp í 100 manns eins og var í skötuhlaðborðinu á Þorláksmessu. Það var sturlað, fyrstu kúnnarnir voru mættir klukkan 11 og sá síðasti renndi niður síðasta bitanum rétt fyrir 17.“
Ægilega skemmtilegt þegar fullsetið er yfir kótelettunum
Bókakaffi er menningarstaður íbúa í Fellum. Hópur kvenna hittist þar í morgunkaffi klukkan níu, í raun tveimur tímum áður en Bókakaffi opnar. Ýmsir detta síðan inn um hádegisbil. Hápunkturinn er þó kóteletturnar á miðvikudögum.
„Það eru ægilega skemmtilegir dagar, þegar setið er á öllum borðum og spjallið. Síðan slettist smjörið um allt. Það er allt í lagi að þrífa það því það var gaman meðan það slettist. Að meðaltali koma 45-50 manns í þær. Við þurfum að hafa hátt í 30 kg af kótilettum tilbúnar, sama hve margir koma. Ef það koma færri þá sitja þeir frekar lengur og éta meira. Við fáum kóteletturnar sagaðar niður en síðan röspum við þær og kryddum sjálf,“ segir Benedikt.
Nóg er að gera hjá bræðrunum, sem ólust upp á Torfastöðum í Jökulsárhlíð, því þeir eru báðir í úrvalsdeildarliði Hattar í körfuknattleik. „Ég hef verið meiddur og fer því ekki með í útileikina. Annars höfum við kallað í mömmu og Grétu, þær standast ekki hvolpaaugun. Síðan er yndislegur hópur kvenna sem er tilbúinn að hlaupa til og aðstoða okkur. Við verðum þeim ævinlega þakklátir.“
Einn fastaliðurinn enn eru söngvakvöld sem notið hafa mikilla vinsælda. Þau verða á sínum stað. „Við vikum fyrir jólatíðinni og þorrablótunum,“ segja þeir. Gréta var líka þekkt fyrir að grípa í gítarinn en það hafa bræðurnir ekki gert enn. „Það er aldrei að vita, við útilokum ekkert,“ segir Sigurjón en Benedikt tekur fyrir að koma sjálfur fram. „Ég syng bara í eldhúsinu þar sem enginn heyrir í mér. Ég læt það duga í bili.“