Þurfti að moka í gegnum tvö snjóflóð í Grænafelli
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. mar 2023 14:33 • Uppfært 28. mar 2023 14:35
Fært er orðið um Fagradal og Fannardal en verið að skoða hvort óhætt þyki að hleypa almennri umferð þar um vegna snjóflóðahættu. Mikið fannfergi hefur gert snjómokstur mjög erfiðan.
„Það er mjög mikill snjór alls staðar. Í Grænafelli voru tvö snjóflóð sem þurfi að grafa í gegnum. Það fóru tveir blásarar af stað frá Egilsstöðum í morgun og þeir hafa verið að síðan við að koma sér í gegn. Þeir voru meira að segja byrjaðir í gær,“ segir Davíð Þór Eyrbekk Sigfússon, deildarstjóri þjónustudeildar Vegagerðarinnar á austursvæði.
Tæknilega séð er því fært yfir Fagradal en beðið eftir mati Veðurstofunnar á snjóflóðahættu upp á hvort óhætt teljist að hleypa almennri umferð þar um. Á meðan er verið að breikka ruðningana. Staðan er sú sama í Fannardal, þar var ekki snjóflóð á vegi og gekk gekk vel að moka.
Fundur stendur yfir hjá almannavörnum og er von á næstu upplýsingum um vegina um klukkan 16:00.
Ófært er enn milli Breiðdalsvíkur og Fáskrúðsfjarðar. „Það man enginn eftir svona snjómagni á því svæði. Í hádeginu í gær fór hjólaskófla af stað frá Breiðdalsvík, hún komst í gegn seint í gærkvöldi. Síðan skóf aftur í í nótt,“ segir Davíð.
Þrjár vélar auk mokstursbíla eru nú að störfum á svæðinu. Snjóblásari bilaði í morgun og það tafði fyrir en hann er kominn aftur af stað.
En þótt það takist að opnast óttast Vegagerðin að það haldist ekki lengi. Strax í kvöld er von á nýjum úrkomubakka upp að Austfjörðum. Spáð er talsverðri snjókomu fram að helgi. Gangi sú veðurspá eftir er viðbúið að erfitt reynist að halda fjallvegum opnum og miðað við reynslu síðustu daga fleiri leiðum.
Mynd úr safni.