Skip to main content

Tíma tekur að festa háskólanám á Austurlandi í sessi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. mar 2023 09:02Uppfært 10. mar 2023 09:02

Aðeins einn af þeim þremur nemendum sem í haust skráðu sig til þátttöku í háskólanámi í tölvunarfræði á Austurlandi er enn í námi. Námsstjórar segja eðlilegt að tíma taki að festa nýtt nám í sessi.


Unnið hefur verið að uppbyggingu háskólanáms í töluverðan tíma í samvinnu Austurbrúar, Háskólans á Akureyri, Háskólans í Reykjavík og íslenska ríkisins. Í maí í fyrra var tilkynnt um að staðnám til BS-gráðu í tölvunarfræði hæfist á Austurlandi síðastliðið haust.

Þrír einstaklingar skráðu sig í námið. Einn heltist fljótlega úr lestinni og annar hætti um áramótin. Sá þriðji er enn að og stefnir á að bæta aftur við sig í haust, samkvæmt upplýsingum frá námsstjórum.

Frá haustinu 2021 hefur verið í boði háskólagrunnur frá Austurlandi, fyrir þá einstaklinga sem hafa ekki lokið því námi sem þarf til að innritast í háskóla. Þrír einstaklingar skráðu sig í það nám í haust, tveir heltust úr lestinni en sá sem eftir er mun trúlega ljúka því í vor. Enginn bættist við um áramótin.

„Ástæðurnar liggja ekki alveg ljósar fyrir en háskólagrunnurinn er töluvert mikið nám á skömmum tíma og mig grunar að margir hafi séð fyrir sér að taka grunninn svona í og með vinnu og öðru, en svo áttað sig á að það er töluvert flóknara en að segja,“ segir Ólafur Jónsson, verkefnastjóri hjá Háskólanum á Akureyri.

Hann, ásamt Grétu Björgu Ólafsdóttur heldur halda saman þeim þráðum sem þarf til að bjóða upp á háskólanám hér á Austurlandi. Bæði eru sammála um að tíma taki að festa nýtt nám í sessi, slíkt hafi meðal annars sýnt sig hjá HA. „Þrátt fyrir að hafa takmarkaðan tíma til að koma þessu á koppinn austanlands í fyrra, þá gekk það að mínu mati vel.“

Nemendur að austan hafa líka reynt að taka námið meðfram vinnu en það reynist stundum snúið. „Það vill stundum gleymast að háskólanám er í raun og veru full starf eitt og sér,“ segir Gréta Björg. „Fólk er kannski gjarnt að líta á háskólanám sem aukabúgrein meðfram vinnu, en í raun ætti þetta að vera öfugt ef allt á að ganga upp.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.