Tuttugu lausar lóðir í Votahvammi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 24. feb 2023 15:42 • Uppfært 24. feb 2023 15:53
Tuttugu lóðir sem rúmað geta alls allt fleiri en sjötíu íbúðir hafa verið auglýstar lausar til úthlutunar í Votahvammi á Egilsstöðum. Með þeim eykst fjölbreytni lóðaframboðs í bænum.
Um er að ræða 19 lóðir fyrir einbýlishús, par/raðhús og fjölbýlishús við göturnar Fífutún og Austurtún auk einbýlishúsalóðar við Ártún. Þar er gert ráð fyrir 49-72 íbúðum í 1-2 hæða húsum. Endanlegt íbúðamagn veltur á hönnum þeirra sem byggja á lóðunum.
„Með þessu erum við að koma inn með fjölbreyttar lóðir. Á Suðursvæði Egilsstaða eru lausar lóðir en mikið til einbýlishúsalóðir,“ segir Hugrún Hjálmarsdóttir, framkvæmda- og umhverfismálastjóri Múlaþings.
Lóðirnar eru á svæði þar sem hesthús Egilsstaða stóðu áður og kölluðust þá Truntubakkar en svæðið er í dag kennt við Votahvamm. Hverfið er á bökkum Eyvindarár og eru einbýlishúsalóðir meðfram ánni meðal þeirra lóða sem í boði eru.
Sveitarfélagið hefur undanfarna mánuði undirbúið lóðirnar. „Við fórum af stað með gatnagerð í haust og hún er mjög langt komin. Síðan er búið að aðlaga svæðið þannig það er allt í réttum hæðum miðað við göturnar. Eftir er að klára að leggja lagnir en það verður gert í apríl og maí, áður en lóðirnar verða afhentar.“
Umsóknarfrestur um lóðirnar er til næsta miðvikudags, 1. mars. Í tilkynningu Múlaþings er gerð nánari grein fyrir skilyrðum svo sem bankaábyrgðum, að hver umsækjandi fái aðeins eina lóð þótt honum sé frjálst að sækja um fleiri og svo framvegis. Gert er ráð fyrir að úthluta lóðunum 7. mars en þær sem eftir standa verði auglýstar aftur. Þær verða síðan afhentar 15. maí að loknum framkvæmdum.