Skip to main content

Tvær nýjar tegundir bætast í hópinn frá Blávík

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. feb 2023 14:22Uppfært 01. feb 2023 14:22

Þýski líffræðingurinn Marco Thines og samstarfsfólk hans hafa nýverið birt tvær nýjar vísindagreinar um áður óþekktar lífverur sem fundist hafa innan marka jarðarinnar Blávíkur í Fáskrúðsfirði.


Fyrri tegundin kallast pontisma blauvikense. Um er að ræða örlítið sníkjudýr, um 50 míkrómetrar að stærð, sem lifir á þara.

Í grein sem birtist í tímaritinu Journal of Eukaryotic Microbiology segir frá því að sýni hafi verið tekin að Blávík í apríl og ágúst á síðasta ári þar sem tegundin hafi fundist. Endanleg greinin hafi síðan verið gerð á rannsóknarstofu í Frankfurt í Þýskalandi.

Fjallað er um að sníkjudýrin séu lítt rannsökuð og fáar verur á borð við þessa hafi fundist frá lokum 19. aldar og þar til nýlega. Bent er á að margt sé óljóst um þróun tegundarinnar og skyldleika en Marco og samstarfsfólk hans birti fyrir tveimur árum grein þar sem bent var á tengsl pontism-ættarinnar við sníkjudýr sem þrífst á grænþara.

Þá er komið inn á að nánari rannsókna sé þörf, svo sem hvernig sníkjudýrin þrífist á hýslum sínum en í ljós kom að fjöldi þeirra var mjög misjafn milli stakra þörunga.

Latnesk heiti beggja tegunda vísar til fundarstaðarins, Blávíkur í sunnanverðum Fáskrúðsfirði, þar sem vísindahópurinn er með miðstöð rannsókna sinna hérlendis. Sú seinni kallast því mikilfenglega nafni miracula blauvikensis.

Grein um hana birtist í Fungal Systematics and Evolution í desember en sýnum var safnað að Blávík í júlí og ágúst. Er þar um að ræða afar smátt sníkjudýr sem lifir á kísilþörungum. Í greininni er fjallað um að afar lítið sé vitað um þennan lífheim sem þó geti haft veruleg áhrif á lífríki hafsins, svo sem blóma þörunga. Ekki síst skorti rannsóknir á norðurslóðum en uppgötvun miracula blauvikensis þykir benda til þess að skyldar tegundir finnist víða á þeim slóðum.