Skip to main content

Umfangsmikil rýming á Seyðisfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. mar 2023 09:36Uppfært 27. mar 2023 09:53

Gripið hefur til umfangsmikillar rýmingar á Seyðisfirði vegna snjóflóðahættu. Ekkert flóð hefur þar fallið enn, svo vitað sé.


Á Seyðisfirði er verið að rýma svæði á reitum 4, 5, 6, 7, 14, 16, 17 og 18 samkvæmt rýmingarkorti Veðurstofunnar.

Hærri tölurnar eru í norðanverðum firðinum undir fjallinu Bjólfi. Þar á meðal eru tvær blokkir á Bakkasvæði og byggðin á Eyrinni. Á þessu svæði er töluvert um íbúðarhúsnæði.

Lægri númerin eru í sunnanverðum firðinum undir Strandartindi. Svæðið byrjar við frystihúsið og nær út fyrir það. Þar er mest um að ræða atvinnuhúsnæði. Þar innan við er svæðið sem skriðurnar féllu á í desember 2020. Engin rýming er í gangi þar.

Í Neskaupstað hafa hús undir Nesgili og Bakkagili verið rýmd en það svæði er í ytri hluta miðs staðarins. Efsta húsaröð undir varnargörðum var rýmd í öryggisskyni auk atvinnuhúsnæðis innst í bænum.

Bæði á Seyðisfirði og Norðfirði hefur hættustigi verið lýst yfir. Félagsheimilin Herðubreið og Egilsbúð gegna hlutverki fjöldahjálparmiðstöðva.

Þær upplýsingar fengust hjá almannavörnum að gripið væri til aðgerðanna í öryggisskyni. Viðbragðsaðilar hafa nú náð góð yfirsýn á stöðu mála en áfram er fylgst náið með. Tilmæli um að fólk haldi sig heima við eru enn í gildi.

Gul veðurviðvörun vegna snjókomu og skafrennings hefur verið framlengd til klukkan sjö í kvöld.

--Samkvæmt yfirliti frá lögreglu eru eftirfarandi hús á Seyðisfirði rýmd og íbúar beðnir um að mæta í Herðubreið til skráningar.

Gilsbakki 1 Hamrabakki 8–10
Fjarðargata 1 Fjörður 1, 4 og 6 Ránargata 2
Ránargata 2a, 2c, 4, 8, 9 (farfuglaheimili), 11, 13 og 15
Ránargata 17 og 23 Vestdalseyrarvegur 2
Strandarvegur 27, 29–33, 35
Strandarvegur 15–19, 21 og 23
Hafnargata 52a Strandarvegur 1–11
Hafnargata 35–37, 41, 42, 42b, 44, 44b, 46 og 47
Íbúar eru beðnir um að fara í fjöldahjálparstöð í Herðubreið til skráningar.