Unga fólkið vill meiri kynfræðslu í skólum Múlaþings

Meiri kynfræðsla, aukin áhersla á fjármálalæsi og meira val um námsleiðir í skólunum var meðal þess sem ályktað var um á sérstöku Ungmennaþingi sem fram fór í Valaskjálf á Egilsstöðum nýverið.

Það var ungmennaráð Múlaþings sem blés til þingsins en yfirskriftin var „Hvað þýðir sameining fyrir okkur“ og lögð áhersla á það hvernig sameining fjögurra sveitarfélaga í eitt hefur haft áhrif á unga fólkið á svæðunum sem um ræðir.

Fjölmargar forvitnilegar ábendingar bárust frá gestum á þinginu um hvað mætti betur fara og gera til framtíðar fyrir yngra fólkið. Auknir valmöguleikar í skólum var áberandi ósk og þá ekki síst varðandi tungumálanám og margir vildu sjá meira af námsefni sem beinlínis gerir fólk tilbúnara út í lífið að námi loknu. Þar sérstaklega nefnt að fjármálalæsi þyrfti að efla sem og skilning á skattamálum og tölvutækni. Ýmsir vildu ennfremur sjá aukna kynfræðslu verða hluta af námi.

Gestum fannst engin ástæða til að skoða sérstaklega sameiningar grunnskóla í Múlaþingi en hins vegar kom til tals að nýta kennara meira á milli skólanna. Þar á meðal ábending um að samnýta frekar kennslu unglinga í Fella- og Egilsstaðaskóla.

Unga fólkið var líka á þeirri skoðun að bæta þyrfti samgöngur á milli byggðakjarna sveitarfélagsins ekki hvað síst varðandi aðgengi að íþróttaæfingum og félagsmiðstöðvum. Bæta þarf framboð íþrótta- og tómstundastarfs í smæstu byggðakjörnunum og ákall var um bætta aðstöðu til íþrótta og ekki þar síst til knattspyrnuæfinga.

Fjölmargt annað bar á góma gesta á þinginu en allar ábendingar sem fram komu fara til frekari skoðunar hjá viðeigandi stofnunum, ráðum eða nefndum Múlaþings.

Bæta þarf aðstöðu til íþróttaiðkunar í Múlaþingi að mati gesta á Ungmennaþinginu nýverið. Mynd Múlaþing

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.