Upplýsingagjöf lykilatriði við hættu á náttúruhamförum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 24. feb 2023 12:19 • Uppfært 24. feb 2023 12:20
Seyðisfjörður er meðal tíu svæða í Evrópu, sem annað hvort hafa orðið fyrir náttúruhamförum eða eiga þær á hættu, sem taka þátt í verkefni sem ætlað er að auka öryggi og öryggistilfinningu fólks á slíkum stöðum. Verkefninu var ýtt þar úr vör með íbúafundi nýverið en það stendur í fjögur ár.
Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fer fyrir verkefninu hérlendis. Seyðfirðingar þekkja hana fyrir að hafa farið fyrir almannavarnahóp í Herðubreið fyrstu vikurnar
„Það má segja sem svo að þetta verkefni eigi að efla seiglu með tilliti til öfgaveðurs sem á sér stað vegna loftslagsbreytinga, og eða náttúrubreytinga sem hægt er að tengja við sömu loftslagsbreytingar. Það eru til dæmis allmargir sérfræðingar sem telja að aurskriðurnar sem féllu á Seyðisfirði í desember 2020 megi rekja til breytinga á loftslaginu,“ segir hún um verkefnið The HuT í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.
Í verkefninu er meðal annars safnað upplýsingum frá heimafólki sem nýtast ef til hamfara kemur og þeim miðlað áfram. „Þetta er afar erfiður tími fyrir alla sem að koma. Bæði íbúa sem hugsanlega verða fyrir eignatjóni eða eitthvað þaðan af verra, en ekki síður fyrir viðbragðsaðila sem að koma auk starfsfólks stofnana og embætta sem að málum koma.
Virkja þarf fyrstu viðbragsaðila, lögreglu, sjúkrahús og jafnvel heilu stofnanirnar sem að þurfa að koma. Allir þessir aðilar og fleiri til þurfa frá upphafi að vera á sömu síðu með ákveðna áætlun sem tekur mið af hverju því sem kemur fyrir.“
Frá fundinum á Seyðisfirði. Mynd: Austurbrú
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.