Skip to main content

Uppsetning vindmylla við Lagarfoss skal í umhverfismat

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. des 2022 11:19Uppfært 19. des 2022 11:29

Skipulagsstofnun hefur kveðið upp úr að uppsetning tveggja vindmylla skammt frá Lagarfossvirkjun skuli háð umhverfismati.

Þetta tilkynnti stofnunin fyrir skömmu en meginniðurstaðan er sú að miðað við fyrirliggjandi gögn og þeirra viðmiða sem tilgreind eru í lögum um umhverfismat sé framkvæmdin háð mati á umhverfisáhrifum. Gefin er kærufrestur fram til 25. janúar.

Orkusalan, dótturfyrirtæki RARIK, hefur um hríð undirbúið uppsetningu tveggja vindmylla um 200 metrum austan við Lagarfossvirkjun og fékk grænt ljós frá sveitarstjórn Múlaþings þegar þar var samþykkt að breyta aðalskipulagi til að koma til móts við verkefnið fyrir rúmu ári síðan. Hæð vindmyllanna verður 160 metrar í hæstu spaðastöðu og ráðgert að þær framleiði allt að 9,9 megawött af raforku.

Fjölmargir umsagnaraðilar gera margháttaðar athugasemdir við vindmyllur á þessum stað og má þar nefna Náttúrufræðistofnun, Landsnet, Minjastofnun, Heilbrigðisnefnd Austurlands meðan stofnanir á borð við Umhverfisstofnun telja ólíklegt að sérstakt umhverfismat leiði fram nýjar upplýsingar sem ekki liggi fyrir að þessari stundu. Ekki sé ástæða til að ætla að framkvæmdin muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.

Skipulagsstofnun er á öðru máli eftir að hafa farið yfir gögnin en í niðurlagi segir:

„Landslag í kringum framkvæmdasvæðið einkennist af löngum sjónlengdum og mikilli víðsýni. Stórar vindmyllur því líklegar til að vera ráðandi þáttur í landslagi svæðisins. Með tilliti til staðsetningar, þar á meðal nálægra verndarsvæða, telur Skipulagsstofnun líklegt að áhrif framkvæmdarinnar á landslag verði mikil. Sjónræn áhrif framkvæmdanna munu ná yfir stórt svæði og eru líkleg til að fela í sér breytta ásýnd frá bæjum, frístundahúsum, útivistarsvæðum og ferðaleiðum. Að mati Skipulagsstofnunar eru áhrif framkvæmdarinnar á ásýnd því einnig líkleg til að verða mikil. Áhrif á landslag og ásýnd eru að miklu leyti afturkræf en horfa ber til þess að mannvirkin koma til með að standa í langan tíma. Möguleikar á að draga úr áhrifum á landslag og ásýnd eru afar takmarkaðir.“

„Almennt má skipta áhrifum vindorkuvera á fugla í þrennt: a) beina röskun á búsvæðum og truflun á meðan framkvæmdum stendur, b) árekstrarhættu og c) afleidd áhrif eftir að starfsemi hefst sem meðal annars felst í að fuglar forðast að nýta svæði umhverfis framkvæmdasvæði. Með hliðsjón af því að fyrirhugaðar framkvæmdir fela í sér takmarkað rask á landi má gera ráð fyrir að bein áhrif vegna röskunar búsvæða verði takmörkuð. Aftur á móti er óvissa um áhrif vegna árekstra og um afleidd áhrif þar sem ekki liggja fyrir upplýsingar um hvernig fuglar nýta svæðið. Með hliðsjón af staðsetningu kunna þau áhrif þó að vera talsverð.“

Fyrirhuguð staðsetning þeirra tveggja vindmylla sem Orkusalan vill setja upp við Lagarfoss. Skjáskot Orkusalan/EFLA