Orkumálinn 2024

Hvernig er spáð að veðrið gangi yfir Austfirði?

Úrkoma, sem síðar færist norðar eftir Austfjörðum, er byrjuð á Teigarhorni í Berufirði. Tvær veðurviðvarnir eru í gildi fyrir Austfirði á morgun, önnur vegna snjókomu, hin vegna asahláku. Hætta er á að vegir lokist og rafmagnstruflunum fram til föstudag.

„Það er að koma lægðardrag upp að Austfjörðum. Lítilsháttar úrkoma byrjuð á Teigarhorni og er viðloðandi víðar. Til fjalla er snjókoma. Úrkoman færist norðar, að Eskifirði og Norðfirði, þegar líður á daginn og kvöldið og bætir í.

Þetta er mest snjókoma, mögulega slydda einhvers staðar á láglendi. Hún er umtalsverð, ákefðin er allt að 10 mm. á klukkustund,“ segir Eiríkur Örn Jóhannsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Veðurstofan gaf í morgun út nýjar veðurviðvaranir fyrir Austfirði, það er svæði sunnan frá Djúpavogi norður að Borgarfirði. Appelsínugul viðvörun vegna snjókomu tekur gildi klukkan sjö í kvöld en klukkan þrjú á morgun bætist við gul viðvörun vegna asahláku.

„Þetta er nokkuð sérstakt veður og óvenjulegt fyrirkomulag. Um hádegi á morgun fer að hlýna og rigna sunnan til á Austfjörðum. Norðar á svæðinu, einkum norðan Eskifjarðar, verður snjókoma sem að endingu verður að rigningu aðfaranótt föstudags eða á föstudagsmorgun.“

Báðar viðvaranirnar gilda til miðnættis annað kvöld. Verklag Veðurstofunnar er þannig að viðvaranir hafa takmarkaðan gildistíma en líkur eru á að viðvaranirnar verði lengdar fram á föstudag. Úrkomu er von um allt Austurland á morgun en þar er ekki slíkt snjómagn fyrir að ástæða þyki til að vara sérstaklega við henni.

Landsnet sendi undir hádegi frá sér viðvörun vegna hættu á ísingu á raflínur frá Höfn að Seyðisfirði og þar með rafmagnstruflunum.

Vegagerðin hefur varað við því að líkur séu á að færð verði erfið á næstu daga. Lokað hefur verið yfir Fjarðarheiði í dag þar sem mokstursbíll festist í morgun. Gríðarlega mikill snjór er á svæðinu eins og sjá má á meðfylgjandi myndum frá Vegagerðinni sem teknar voru undir Grænafelli í gær. Þar eru komin snjógöng sem fyllast fljótt þegar skefur í.

Frá Fagradal í gær. Myndir: Vegagerðin

fagridalur 20230328 vg 2 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.