VA mætir FSU í Gettu betur í kvöld
Í kvöld mætir Verkmenntaskóli Austurlands til undanúrslita í Gettu betur þar sem þau keppa við Fjölbrautaskóla Suðurlands um sæti í úrslitum. Keppnin verður sýnd á RÚV klukkan 20:00. Ingibjörg Þórðardóttir, þjálfari liðsins, vonar að þeir sem ekki komist í sjónvarpssal sitji spenntir heima fyrir framan sjónvarpið í kvöld.
Lið VA tók æfingakeppni í gær á móti gömlum Gettu betur keppendum úr VA. Þar mættu til leiks þau Óskar Ágúst, Hrönn Hilmars og Þórður Vilberg sem öll eru útskriftarnemar frá VA Árið 2002 komst VA líka áfram í sjónvarpið og Óskar Ágúst var í því liði. Núverandi lið VA, þau Ágústa Vala, Geir og Ragnar, töpuðu æfingarleiknum fyrir gömlu kempunum. Ingibjörg segir það ekki valda þeim neinum áhyggjum. „Við höfum lagt það í vana okkar að tapa æfingakeppni daginn fyrir keppni,” segir Ingibjörg. „Það var gert svolítið úr æfingakeppninni í gær, henni var streymt og öllum velkomið að koma sem var mjög gaman og bjó til mikla stemningu.”
Ingibjörg segir ferðalagið suður hafa byrjað brösuglega en gengið vel. „Við vöknuðum í morgun og þá var Fagridalurinn ófær, en við rétt náðum fluginu,” segir Ingibjörg.
Það hefur gengið vel hjá liðinu að æfa en þau tóku sér verðskuldað frí eftir síðasta sigur. Síðustu tvær vikur hafa krakkarnir æft á hverjum degi til að undirbúa sig. Ingibjörg segir að það geti verið erfitt að halda dampi svona lengi en að það sé metnaður í liðinu. „Það er metnaður í þessum krökkum, þau langar alveg að vinna en við erum líka meðvituð um það að við erum komin rosa langt,” segir Ingibjörg. Hún bendir líka á það að VA er einn af langminnstu menntaskólum landsins og einn af fjórum í undanúrslitum Gettu betur.
Ingibjörg býst við mikilli stemningu í sjónvarpssalnum í kvöld. „Nemendur skólans hafa æft söngva til að búa til stemningu í salnum og nemendafélagið lét prenta á boli. Þessi keppni hefur áhrif á allan skólabraginn og það verður mikið líf í kringum þetta.” Nemendur og starfsfólk skólans hafa gert sér ferð suður til þess að styðja liðið og má búast við mikilli baráttu í kvöld.