Skip to main content

Varað við asahláku á morgun og hinn

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. jan 2023 09:27Uppfært 19. jan 2023 09:27

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun vegna asahláku á Austfjörðum og Austurlandi á föstudag og laugardag. Spáð er hlýindum, vindi og rigningu.


Á Austfjörðum tekur viðvörunin gildi á hádegi á morgun, föstudag og gildir til klukkan sex síðdegis á laugardag. Á Austurlandi gengur viðvörunin tveimur tímum síðar í gildi, 14:00 á föstudag og lýkur klukkustund fyrr eða 17:00 á laugardag.

Veðurlýsingin er annars áþekk fyrir bæði spásvæði, sunnan 10-18 m/s, hiti 5-12 stig og rigning, stundum talsverð. Svo virðist sem rigningin geti orðið heldur meiri á Austfjörðum.

Fyrri partinn á morgun, áður en hlýnar, má búast við talsverðum vindi og snjókomu en síðan verður gríðarleg umbreyting.

Á meðan viðvaranirnar gilda má búast við talsverðu afrennsli vegna úrkomu og snjóbráðnunar sem og vexti í ám og lækjum. Ár, sem margar eru í klaka, geta rutt sig. Þess vegna er fólk beðið um að sýna aðgát. Líklegt er að flughált verði á blautum klaka.

Fólk er hvatt til að huga að niðurföllum til að vatn komist leiðar sinnar þannig ekki verði tjón af því.