Varað við hvassviðri í kvöld og á morgun
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 17. jún 2022 11:10 • Uppfært 17. jún 2022 11:11
Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Austfirði vegna norðvestan hvassviðris með kvöldinu. Von er á talsverðri rigningu í dag sem hefur áhrif á hátíðahöld þjóðhátíðardagsins. Aftur birtir til á sunnudag.
Vegna rigningarspárinnar hafa flestir skipuleggjendur viðburða brugðist við með að færa dagskrá sína inn og í einhverjum tilfellum breyta henni. Upplýsingar um það eru á miðlum sveitarfélaga.
Gula viðvörunin tekur gildi klukkan ellefu í kvöld og gildir til sex síðdegis á morgun. Á þessum tíma er búist með norðvestan 13-20 m/s með rigningu á köflum í fyrramálið. Þetta skapar varasamar aðstæður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.
Rétt er að taka fram að viðvaranir eru einnig í gildi á Suðaustur- og Suðurlandi vegna hvassviðris. Þá bendir Veðurstofan á að víðar á landinu verði stífur vindur, til að mynda 8-15 m/s á Austurlandi að Glettingi.
Veðrið gengur niður seinni partinn á morgun og á sunnudag er spáð hægri suðvestanátt, sólskini og yfir 20 stiga hita eystra.
Mynd: Ómar Bogason