Skip to main content

Varað við byl á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. des 2022 12:12Uppfært 19. des 2022 12:12

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir spásvæðið Austurland að Glettingi á morgun en stytt viðvörun sem þegar hafði verið gefin út fyrir Austfirði.


Gul viðvörun tók gildi fyrir Austfirði klukkan sex í morgun og gilti upphaflega fram til klukkan ellefu á þriðjudagskvöld en hefur nú verið stytt um klukkustund.

Í texta segir að búist sé við norðaustan 15-23 m/s með snörpum vindhviðum við fjöll. Eins megi búast við éljum og skafrenningi með versnandi akstursskilyrðum. Eftir hádegi á morgun er von á samfelldri snjókomu eða slyddu.

Þá hefur verið gefin út gul viðvörun fyrir Austurland að Glettingi á morgun frá klukkan tíu um morguninn fram til sjö um kvöldið. Spáð er norðaustan 15-20 m/s og snjókomu eða skafrenningi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum.

Ekki er útlit fyrir að veðrið gangi niður fyrr en eftir hádegi á miðvikudag en þangað til er áfram spáð norðaustan 13-20 m/s.

Veðrið hefur sín áhrif á færðina eystra, þótt aðeins sé lokað um Mjóafjarðarheiði og Hellisheiði er greinilegt í kortum Vegagerðarinnar að víða er leiðinlegt að fara um. Þæfingur er á Vatnsskarði og á Fjarðarheiði. Á síðarnefnda staðnum er varað við að vegurinn sé einbreiður á köflum vegna snjóruðninga.

Þungfært er um Öxi og þæfingur á Breiðdalsheiði. Á flestum leiðum er ýmist snjókoma eða skafrenningur. Færðin er skárri á Suðurfjörðunum, aðeins hálkuflettir sunnan Stöðvarfjarðar og autt eftir að komið er að Djúpavogi en þar er hins vegar frekar hvasst.

Vegagerðin varar einnig við hreindýrum víða í námunda við vegi á Austurlandi.