Skip to main content

Varhugaverður innflutningur á trjábolum með berki frá Póllandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. mar 2023 14:21Uppfært 03. mar 2023 14:27

Fyrirtæki eitt sem flutti inn trjáboli með berki frá Póllandi fékk sínu framgengt hjá Matvælaráðuneytinu eftir að Matvælastofnun hafði áður hafnað innflutningnum. Full ástæða er að gjalda varhug við slíkum innflutningi að mati tveggja sérfræðinga hjá Skógræktinni.

Þær Brynja Hrafnkelsdóttir, skordýrafræðingur, og Edda S. Oddsdóttir, sviðstjóri rannsóknarsviðs, fjalla um þennan gjörning á vef Skógræktarinnar en það er í berki trjáa sem í getur leynst ýmis konar óværa sem ógnað gæti skógum á Íslandi eins og raungerst hefur víða í nágrannlöndum. Matvælaráðuneytið heimilaði innflutninginn með þeim rökum að umrædd tré hefðu verið ræktuð á skógræktarsvæði þar sem tré eru felld reglubundið samkvæmt vottorði frá pólskum yfirvöldum.

Í máli sínu benda þær stöllur á að það er aðeins með afbörkun sem hægt er að minnka líkurnar á að með viðnum berist skaðvaldar á borð við barkarbjöllur eða fiðrilda, bukku eða vesputegundir sem allar geta valdið miklu tjóni á skógum. Enn sem komið er hefur engin barkarbjöllutegund numið hér land meðan barkarbjöllufaraldur geysar í skógum helstu nágrannlanda.

Í niðurlagi greinar sinnar segja þær Edda og Brynja: Hér á landi eru tiltölulega fáir skaðvaldar og því eru plöntur hér sérlega viðkvæmar fyrir landnámi nýrra meindýra. Skortur á náttúrulegum óvinum eykur svo enn getu meindýra til hraðrar útbreiðslu, eins og hefur sýnt sig í nýjum skaðvöldum á birki. Innflutningur á viði með berki eykur líkurnar á að fleiri nýir skaðvaldar nemi hér land, ekki síst barkarbjöllur og fylgisveppir þeirra, sem gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir skóga landsins.

Þekkt er að barkarbjöllur, sem oft leynast undir eða í berki trjáa, gera farið mjög illa með birkitré sem víða finnast í landinu. Mynd Landgræðslan.