Veit ekki um neinn sem brugðið hefur búi vegna hækkana á áburðarverði
„Það hafa vissulega margir reynt að kaupa ódýrari áburð eða minnkað keypt magn en þó nokkur fjöldi hefur haldið áfram að taka sama magn og alltaf,“ segir Sigurbjörn Snæþórsson, bóndi og sölumaður Fóðurblöndunnar á Austurlandi.
Verð á áburði hefur sem kunnugt er hækkað umtalsvert frá því snemma í vetur, í tilfellum um allt að 120 prósent, og lítið lát virðist á. Erlendir fræðingar telja afar líklegt að áburðarverð hækki töluvert meira og ekki hvað síst vegna viðskiptaþvingana á Rússa vegna innrásar þeirra í Úkraínu. Rússar bæði framleiða stóran hluta þess áburðar sem notaður er í Evrópu en sökum góðrar birgðastöðu hjá stærri birgjum koma þær hækkanir líkast til ekki fram að fullu fyrr en komið verður fram á haustið.
Sigurbjörn segist vita af bændum sem hafi reynt að brúka skít og jafnvel moltu á tún sín í stað þess að kaupa tilbúinn áburð. Enn aðrir hafi minnkað magnið sem keypt er en enginn hefur hingað til óskað eftir að skila áburði. Það er gjarnan merki um að fólk ætli sér að bregða búi.
„Nei, ekkert slíkt enn sem komið er hjá mér. Vissulega heyrir maður annars lagið að einhverjir séu að hætta en það er líkast til af öðrum ástæðum en verðhækkunum á áburði frá því í vetur.“