„Velflestir í Neskaupstað að búa sig undir að vera bara heima um hríð“

Almannavarnir, lögregla og viðbragðsaðilar hvetja íbúa á hættusvæðum austanlands til að halda kyrru fyrir í húsum sínum sé þess kostur næstu dægrin vegna slæmrar veðurspár. Miðað við mikla traffík í Kjörbúðinni í Neskaupstað í gær og í dag eru líklega margir að hlýta því kallinu.

Það er mat Klöru Jóhönnu Jóhannsdóttur, verslunarstjóra í búðinni, en hún segir umferðina í verslunina síðasta sólarhring hafa verið með allra mesta móti og enginn vafi leiki á að fólk sé að birgja sig upp fyrir næsta daga ef veðurspár ganga eftir.

„Það var sannarlega mikil traffík miðað við þessa verslun og fólk að kaupa þessar helstu nauðsynjavörur og í meira magni en almennt gerist svo ég geri fastlega ráð fyrir að þetta sé heimafólk sem sér fyrir sér að næstu dagar gætu orðið erfiðir og þá vill maður auðvitað ekki þurfa að bæta skorti á matvælum ofan á allt annað.“

Fyrir vikið var verslunin mun tómlegri en ella þegar Austurfrétt barði að dyrum þar í morgun en Klara metur það svo að hún fái nægar vörur á nýjan leik síðdegis.

„Mjólkurbíllinn er nýbúinn að koma svo við erum vel stödd þar. Svo var ég með stóra pöntun á hinu og þessu sem ég átti að fá á föstudaginn kemur en ég óskaði eftir að fá flýtimeðferð á þá sendingu og við því var orðið svo ég vonast til að við getum fyllt hillurnar á ný síðar í dag.“

Líkt og í verslun Olís í bænum hyggst Klara meta opnunartíma næstu daga dálítið eftir hendinni en reynt verði að hafa opið eins mikið og hægt er og  þörf verður á ef veðurspár verða jafn slæmar og þær gefa nú til kynna.

Klara segir engan vafa leika á að margir bæjarbúar séu skelkaðir vegna flóðanna síðustu daga og slæmrar spár en hún veit líka að heimamenn í Neskaupstað eru ýmsu misjöfnu vanir.

„Það er sterkt fólk sem hér býr og enn margir hér sem muna flóðin 1974 og hafa mikla reynslu gegnum það. Fólk gætir að sér og veit af hættunni en það þýðir ekkert að leggjast í kör. Sjálf bý ég í Mýrargötunni utan varnargarða og ég og fleiri máttum fara heim í gær og ég get sagt þér að ég svaf bara eins og ég væri rotuð síðastliðna nótt.“

Klara verslunarstjóri á kontór sínum í Kjörbúðinni. Hún segir vissulega hræðslu í samfélaginu en allir séu að leggjast á eitt að gera vont betra. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.