„Við munum alltaf pluma okkur hér í Neskaupstað“
Eitt það fyrirtæki sem sannarlega hefur galopnað dyr sínar fyrir fólki á Neskaupstað sem ekki á í nein hús að venda vegna rýminga er Hótel Hildibrand sem í samvinnu við fjöldahjálparstöðina í Egilsbúð býður ekki aðeins gistingu heldur og kemur fólk á hrakhólum þangað þegar hungur sverfur að og greiðir ekkert fyrir.
Allt að 200 manns hafa þar notið veitinga á matmálstímum á síðustu dögum og þar mjög hjálpað að hluti starfsfólksins býr í næsta nágrenni og kemst auðveldlega á staðinn þó veður sé válynt. Þá hefur eigandinn sjálfur, Guðröður Hákonarson, komist til og frá á vélsleða meðan vegir hafa verið lokaðir en hann býr töluverðan spotta frá bænum sjálfum inni í firðinum.
Guðröður ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum og sjálfur tekur hann þeim hamförum sem orðið hafa í bænum upp á síðkastið með jafnaðargeði.
„Þetta hefur alltaf verið hluti af lífinu í þessum bæ og menn læra að lifa með þessari hættu eins og öðru. Allir leggjast á eitt, gera sitt besta og lífið heldur svo áfram.“
Aðspurður um matarbirgðir ef vegum til og frá er lokað í lengri tíma segir hann stöðuna góða og hefur litlar áhyggjur af matvælaskorti eins og stöku bæjarbúar hafa lýst áhyggjum af í samtali við Austurfrétt. Vegurinn frá Norðfjarðargöngum að Neskaupstað hefur verið lokaður það sem af er degi og verður að líkindum eitthvað áfram.
„Það verður aldrei svo að við verðum matarlaus hér. Jafnvel ef allt annað þrýtur þá erum við með einhverju stærstu birgðir af fiski í landinu hér niðri á hafnarsvæðinu og persónulega færi ég létt með að borða fisk tíu sinnum í röð ef því er að skipta. Kannski ekki heillandi svo lengi í einu en heldur í okkur lífinu. Þannig að við hér munum alltaf pluma okkur með einhverjum hætti.“
Hann tekur líka undir með ofanflóðasérfræðingum Veðurstofunnar að það sé ekki ýkja mikill snjór í hlíðunum fyrir ofan bæinn og telur sjálfur að með hækkandi hitastigi breytist það litla sem til staðar er í fljótandi form sem ætti varla að valda miklum skaða.
„Nú ætla ég ekkert að þykjast hafa meira vit en snjóflóðafræðingar og efalítið er meiri snjór efst uppi sem illa sést en á þessari stundu finnst mér lítið vera í fjöllum hér nálægt bænum.“